Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Talsverðar tafir og raðir á endurvinnslustöðvum

Talsverðar raðir myndast við endurvinnslustöðvar Sorpu vegna hertra samkomutakmarkana á höfuðborgarsvæðinu.
 Mynd: Sorpa
Mikilvægt er allt rusl sé vel flokkað þegar fólk kemur með það í endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Með því er hægt að forðast tafir en vegna hertra samkomutakmarkana mega mun færri vera samtímis inni á stöðvunum en vanalegt er.

Býsna langar bílaraðir mynduðust við endurvinnslustöðvar í gær en samkvæmt upplýsingum frá Sorpu er viðbúið að tafir verði mestar um helgar. Því er fólk beðið að nýta virka daga til að fara á endurvinnslustöðvarnar, þannig megi dreifa álaginu.

„Við skiljum vel að fólk vilji nota tímann í samkomubanni til að taka til í geymslunni. En eins og staðan er núna verðum við að biðja fólk að hjálpa okkur að dreifa álaginu,“ segir Guðmundur Tryggvi Ólafsson, rekstrarstjóri endurvinnslustöðva Sorpu.

Sömuleiðis er fólk hvatt til að koma ekki á stöðvarnar í stærri hópum en þörf er á stöðvarnar, þannig sé hægt að hleypa fleirum í gegn. Vegna aðkomu og staðhátta hafa raðir og tafir verið mestar við stöðvarnar á Dalvegi, við Sævarhöfða og í Ánanaustum.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV