Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Reglur urðu að tilmælum“ eftir myndatöku ráðherra

Mynd: RÚV / RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist óttast að þær takmarkanir sem nú eru í gildi til að hefta útbreiðslu veirunnar séu of óskýrar og að það hafi áhrif á samstöðu fólks í því að fylgja þeim.

Tímamót þegar ráðherra fór í óheppilega myndatöku

„Það sem að hefur gerst núna frá því í ágúst, og byrjaði kannski þegar einn ráðherra í ríkisstjórn fór í óheppilega myndatöku með vinum sínum, eftir þau tímamót fóru reglurnar að riðlast, þá hætti þetta að vera svona skýrt, þá hættu þetta að vera reglur um tvo metra og urðu tilmæli. Þá fór allt að bjagast,“ sagði Helga Vala í Silfrinu í morgun.

Hún vakti máls á því að ólíkar reglur á ólíkum svæðum væru ruglandi fyrir fólk. „Einhverjir mega fara í golf einhvers staðar og annars staðar ekki. Eitthvað svona póstnúmeraflakk,“ sagði hún. 

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, samsinnti því að það vantaði umræðu um sóttvarnaaðgerðir á Alþingi og Helga Vala lagði það til að hann beitti sér fyrir því innan forsætisnefndar Alþingis að þessi mál kæmust á dagskrá þingsins. 

Tókust á um áhrif takmarkana

Brynjar sagði að hann teldi að neikvæð efnahagsleg áhrif takmarkana væru meiri en áhrif faraldursins. „Við getum ekki bara haft almennar lokanir til þess að vernda hugsanlega einhvern. Þær aðgerðir munu á endanum og að öllum líkindum, ég er nokkuð viss um það, hafa miklu víðtækari og verri áhrif á líf og heilsu okkar til frambúðar. Þú verður með veikara heilbrigðiskerfi, það er meiri fátækt í heiminum, hvort heldur sem mun leiða til dauða margra af því,“ sagði hann. 

„Við stjórnmálamenn þurfum að bera ábyrgðina, það er enginn Þórólfur eða Víðir sem gerir það, eða Alma,“ bætti hann við. 

Fanney Birna benti þá á að það væri ljóst að þríeykið hefði verið í forgrunni í því að kynna aðgerðir, ekki stjórnmálamenn. Og þegar væri kallað eftir ábyrgð á ákvörðunartöku væri leitað til Þórólfs.

„Já, og hvað segir þetta um íslensk stjórnmál?,“ svaraði Brynjar. Hann sagði að það væri orðið viðtekið að nú mætti taka af fólki mannréttindi og loka það inni. Þegar hann og Sigríður Andersen, flokkssystir hans, hefðu orð á því væru þau stimpluð sem Trumpistar. 

Helga Vala hélt því fram að Brynjar gleymdi að horfa á efnahagsleg áhrif þess að fjöldi fólks veiktist eða léti lífið. 

„Fáðu þá fjármálaráðherra til að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið“

Brynjar lagði það til að í stað þess að ráðast í víðtækar takmarkanir yrði „unnið í heilbrigðiskerfinu til þess að það gæti tekið við fleirum“. Helga Vala svaraði honum: „Brynjar, fáðu þá fjármálaráðherra til að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið. Hann er ekki tilbúinn til að gera það. Hann er í þínum flokki. Reyndu að fá hann með okkur í Samfylkingunni í lið til að setja meiri pening í heilbrigðiskerfið. Þá mun þetta ganga betur.“