Sagan hefst þegar Anna Tara hefur samband við tónlistarmanninn Högna Egilsson og biður hann að koma fram á tónleikum sem hún hyggst standa að í Nepal. Þeim er ætlað að vekja athygli á geðrænum sjúkdómum og hjálparlínu fyrir fólk með geðrænan vanda sem Anna Tara setur á fót í landinu. Anna er nefnilega, líkt og móðir hennar, með geðhvörf. Hún fékk innblástur til að stíga fram og opna umræðuna um sjúkdóminn þegar hún sá að Högni hefði sjálfur greint frá sinni glímu við hann. Leikstjórarnir komu þannig inn í spilið að þau ferðast með Högna, að hans frumkvæði, til Nepal til að taka tónleikana upp. Sjálf segjast þau fljótlega hafa áttað sig á því þegar þangað var komið að þau væru með töluvert stærra verk í höndunum en tónleikaupptöku.
Umhverfið er stórbrotið og það er magnað að fá að skreppa í heimsókn í veruleika sem er svo fjarri septembergráma í Reykjavík. Enn merkilegra fannst mér samt að fá að hlýða á tvo ólíka einstaklinga tengjast hvort öðru, en líka leikstjórum og áhorfendum, og sögur þeirra af lífinu með erfiðan sjúkdóm, og öllum hliðum hans. Leikstjórarnir njóta þess að leyfa landslaginu að ýta undir frásögnina og Högni er auðvitað eins og sniðinn inn í sviðsmyndina með flaksandi faxið, hattana og skikkjurnar og allt er þetta ljóðræn veisla fyrir augað og önnur skynfæri. Eldur snarkar í dimmri nótt og Högni syngur ljúfsár lög í kyrrðinni á meðan frumskógardýr hvæsa og gagga í bakgrunni.
Stundum verður myndin meira eins og vídeóverk eða tónlistarvídeó og jafnvel á köflum óþarflega tilraunakennt og listrænt fannst mér á köflum því sögurnar og persónurnar þurfti ekki að skreyta svo mikið. Þegar tvíeykið stillir sér til dæmis upp fyrir dramatíska töku með fílunum og myndefnið minnir á eitthvað sem gæti verið á plötuumslagi fyrir emó poppmetalhljómsveitina Evanescence fannst mér um stund aðeins of mikið af uppstilltri dramatík. En þá gerðist það óvænta, akkúrat þegar fílarnir stóðu kjurrir og pils Önnu Töru og Högna flöksuðu í takt þá kláraðist batterí í einni myndavélinni svo ekki var hægt að klára tökuna. Þegar það var tilkynnt datt orkustigið niður, Anna Tara og Högni gátu hlegið með leikstjórunum og allur salurinn varpaði öndinni léttar og hló. Þegar myndin breytir um stefnu kemur nefnilega leikgleðin inn og það er fjör þegar hún gerir grín að sjálfri sér. Maður fær persónulega hlutdeild í óvissuferðinni og það er hressandi hvernig leikstjórar taka áhættu í stað þess að fara auðveldu leiðina en leyfa okkur að hlæja með þegar öðruvísi fer en ætlað var.
Sögurnar sem þau Högni og Anna Tara segja eru virkilega eftirtektarverðar, grátbroslegar, stundum sprenghlægilegar en líka þyngri en tárum taki og þó var grátið í salnum. Mér fannst til dæmis sérstaklega dýrmætt að sjá þegar Anna Tara opnar fjölskyldualbúmið og sýnir myndir og myndskeið úr æsku af móður sinni sem féll frá fyrir aldur fram. Það er svo fallegt að sjá móðurástina en átakanlegt þegar maður veit hvernig fór. Anna Tara getur þannig lýst því bæði hvernig er að vera með geðhvörf en líka því hvernig það er að vera nánasti aðstandandi manneskju með sjúkdóminn og það litaði æsku hennar mikið. En þó það sé ljóst að traustið á milli leikstjóranna og hennar sé augljóst þá biður Anna Tara stundum um að þurfa ekki að svara spurningunum lengur þegar minningar verða of sárar. Í sjálfu sér þegar ég pæli í því sagði það kannski meira en lýsingar á sjálfum atburðum kynnu að hafa gert.
Högni lét hins vegar gamminn geysa eins og honum er tamt og sagði skemmtisögur af sjálfum sér, frá upplifun sinni af maníum og hvernig honum birtust dularfull skilaboð frá heiminum eða almættinu eins og hann væri útvalinn. Ein besta sagan fannst mér af því þegar hann í slíku ástandi kynntist heimilislausu ljóðskáldi og dró hann í stúdíó með grunlausum hljómsveitarfélögum sínum í Hjaltalín og sagði þeim að spila undir á meðan maðurinn flytti ljóð sín. Þó það væri hægt að hlæja að frábærum og myndrænum lýsingum hans voru sterkustu mómentin líklega þegar alvaran bankaði upp á. Því geðsjúkdómar eru ekkert grín og við erum mjög harkalega minnt á það þegar Högni fær í myndinni símtal að heiman þar sem honum er greint frá fráfalli vinar síns sem var með sama sjúkdóm. Geðhvörf eru dauðans alvara, eins og Högni segir sjálfur aðspurður í myndinni, hvar hann væri ef hann hefði ekki fengið hjálp. „Ég væri bara dáinn.“
Andri Snær lýsir myndinni reyndar sjálfur sem ævintýri fílaprinsessunnar sem er í álögum, sem eru geðhvörf og skömm, og eina leiðin til að aflétta álögunum er að segja nafnið á óvættinum. Þar kemur næsta mynd inn, sem einnig var sýnd á RIFF, því hún fjallaði einnig um prinsessu í álögum. Eina leiðin fyrir hana að aflétta sínum álögum reyndist líka vera að segja töfraorðið.