Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nekt í auglýsingum vekur neikvæð viðhorf

11.10.2020 - 16:20
Skjáskot úr innheimtuauglýsingum RÚV 1982-1985.
 Mynd: RÚV
Íslensk rannsókn bendir til þess að nekt í auglýsingum veki neikvæð viðhorf hjá fólki. Soffía Halldórsdóttir, einn höfunda greinarinnar, segir að viðhorf til nektar virðist hafa breyst hratt á síðustu árum.

Konur sérstaklega neikvæðar gagnvart nöktum konum

„Fyrirliggjandi rannsóknir sýna að karlar hafa jákvæðari viðhorf til auglýsinga sem sýna nekt heldur en konur, en okkar niðurstöður sýna að bæði kyn hafa neikvætt viðhorf til nektar í auglýsingum heilt yfir,“ segir Soffía í samtali við fréttastofu. Konur hafi reyndar enn neikvæðari viðhorf til naktra kvenna heldur en karlar hafa til nakinna karla. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Soffía Halldórsdóttir

Grein um rannsóknina var birt í nýútkomnu Tímariti um viðskipti og efnahagsmál og í greininni segir að niðurstöðurnar bendi hreinlega til þess að það sé misráðið að nota nekt til að grípa athygli neytenda, sérstaklega ef markhópurinn er konur.

Soffía segir að rannsókninni hafi verið ætlað að bregðast við ósamræmi í niðurstöðum fyrri rannsókna og skorti á rannsóknum sem snúa að karlkyns fyrirsætum. 

Fólk láti ekki bjóða sér hvað sem er

Spurð um skýringar á niðurstöðunum segir Soffía að þær hafi ekki verið rannsakaðar sérstaklega en að hún telji að fólk sé orðið meðvitaðra en áður og láti ekki bjóða sér hvað sem er. „Sérstaklega þegar nektin tengist ekki því sem verið er að auglýsa,“ segir hún. Vitundarvakning Metoo byltingarinnar hafi sennilega haft mikil áhrif. 

Alls tóku 1.349 sjálfboðaliðar þátt í rannsókninni, 60 prósent konur og 40 prósent karlar. „Við byrjuðum á því að sýna fólki auglýsingar sem innihéldu annað hvort nakta fyrirsætu eða klædda fyrirsætu, ýmist karlkyns eða kvenkyns, og svo var það beðið um að meta hvernig því líkaði auglýsingin,“ segir hún. 

Auglýsingastofur sói peningum með nektarauglýsingum

Aðspurð hvort hún telji að auglýsingastofur hér á landi taki mark á niðurstöðunum og noti síður nekt í auglýsingum segist Soffía vona það: „Því annars væru þær bara að sóa peningunum sínum með því að auglýsa með nöktum fyrirsætum.“

Rannsóknin var meistaraverkefni Soffíu í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands á síðasta ári og leiðbeinendur hennar og meðhöfundar voru Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Kári Kristinsson, prófessor við sömu deild.