Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Logandi hlutum varpað að húsi og krotað á önnur

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Maður sem gekk austur Laugaveg í gærkvöldi var staðinn að því að skrifa með tússpenna á hús við götuna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók manninn fyrir eignaspjöll og brot á vopnalögum eins og kemur fram í dagbók lögreglunnar. Maðurinn gistir fangaklefa meðan málið er rannsakað.

Annar var kærður fyrir brot á vopnalögum eftir að hann var handtekinn í annarlegu ástandi við fjölbýlishús í Breiðholti með hníf í hendi.

Rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi var tilkynnt um hnupl úr verslun í Mjódd. Í dagbók lögreglu segir að viðkomandi hafi játað brot sitt á staðnum.

Logandi hlutum var kastað úr bifreið að húsi í miðborginni í nótt. Rúður voru brotnar og glóð var á flöskum við húsið. Lögregla rannsakar nú málið.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV