Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Krefst handrita og afsökunarbeiðni frá páfa

11.10.2020 - 07:50
epa08730518 A handout photo made available by the Mexican Ministry of Foreign Affairs of the wife of the president of Mexico Andres Manuel Lopez Obrador, Beatriz Gutierrez Müller, during a conference in Paris, France, 08 October 2020. Mexican President Andres Manuel Lopez Obrador reported on 08 October that his wife, Beatriz Gutierrez Müller, is in Europe to obtain historical and archaeological pieces that will be exhibited next year in Mexico on the occasion of the 200th anniversary of its independence.  EPA-EFE/Mexican Ministry of Foreign Affairs / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Beatriz Gutierrez Müller, eiginkona forseta Mexíkó. Mynd: EPA-EFE - Mexican Ministry of Foreign Affa
Forseti Mexíkó krefur páfagarð um afsökunarbeiðni vegna þáttar kaþólsku kirkjunnar í kúgun innfæddra þegar Spánverjar réðust inn í landið fyrir 500 árum. Krafan er lögð fram í tveggja síðna bréfi sem Andres Manuel Lopez Obrador sendi Frans páfa í byrjun mánaðarins. Þar biður hann einnig um að fá handrit að láni sem Spánverjar höfðu með sér og eru geymd í bókasafni Vatíkansins.

Eiginkona forsetans, Beatriz Gutierrez Müller, afhenti páfa bréfið á föstudag, þegar hún var í opinberri heimsókn hjá Sergio Mattarella, forseta Ítalíu. Lopez Obrador birti bréfið svo á Twitter í gær, sama dag og yfirvöld í Mexíkóborg byrjuðu að fjarlægja styttu af Kristóferi Kólumbus. Mótmælendur höfðu hótað því að rífa styttuna niður.

Lopez Obrador segir spænsku krúnuna, spænsk stjórnvöld og Vatíkanið öll skulda þjóðunum sem byggðu Mexíkó afsökunarbeiðni fyrir grimmdarverkni sem framin voru á þjóðunum af innrásarher Spánverja á sextándu öld. Þá þykir honum þjóðirnar líka eiga skilið loforð um að menning þeirra og trú verði ekki vanvirt á viðlíka hátt aftur.

Lopez Obrador sendi sams konar bréf til Filippusar Spánarkonungs og Frans páfa í fyrra. Spænska ríkisstjórnin hafnaði alfarið afsökunarbeiðninni. Páfinn baðst afsökunar á hlutverki kirkjunnar í kúgun íbúa rómönsku Ameríku á nýlendutímum Spánverja þegar hann var í Bólivíu árið 2015. 

Meðal handritanna sem forsetinn óskar eftir er Codex Borgia. Handritið er tugir blaðsíðna þar sem guðum og helgihöldum í Mexíkó til forna er lýst í riti og myndum. Handritið er ein best varðveitta heimildin um lífið í Mexíkó áður en Spánverjar tóku yfir. Kaþólsk yfirvöld litu á handritin sem verk djöfulsins og skipaði hermönnum að brenna hundruð, eða jafnvel þúsundir handrita. Lopez Obrador óskar eftir tveimur handritum til viðbótar auk korts af Astekaborginni Tenochtitlan. Hann vill fá þau að láni í eitt ár frá og með næsta ári. Þá verða einmitt 500 ár liðin frá því Spánverjar réðust inn í Mexíkó.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV