Nadal hafði fyrir leikinn unnið Opna franska mótið 12 sinnum eða lang oftast allra í sögunni. Hann hafði samtals unnið 19 risatitla á ferlinum fyrir leikinn en Novak Djokovic átti 17 risatitla fyrir úrslitaleikinn í dag. Aðeins Roger Federer hefur unnið fleiri, eða 20.
Opna franska mótið er eina risamótið sem er keppt á leirvöllum og vegna yfirburða sinna á leirmótum hefur Nadal fyrir löngu síðan fengið viðurnefnið Konungur leirsins. Hann sýndi líka af hverju strax í fyrsta setti í dag sem hann vann 6-0. Djokovic náði þó að vinna sig inn í leikinn og leyfði Nadal að hafa talsvert meira fyrir öðru settinu. Nadal vann það þó engu að síður 6-2 og þurfti þá bara að vinna eitt sett í viðbót.
Djokovic var þó ekki að baki dottinn og þriðja settið var svo jafnt að það fór í upphækkun. Þar sýndi konungur leirsins styrk sinn og vann 7-5. Þetta var þrettándi sigur Nadal á Opna franska og tuttugasti risatitillinn sem gerir hann þar með jafnan Roger Federer yfir flesta risatitla frá upphafi.