Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Allir á unglingastigi í Lindaskóla í sóttkví

11.10.2020 - 17:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allir nemendur og kennarar á unglingastigi í Lindaskóla í Kópavogi voru sendir í sóttkví í gær eftir að kennari sem kennir öllum bekkjunum greindist með COVID-19. Sóttkvíin gildir til föstudags og Guðrún G. Halldórsdóttir skólastjóri segir í samtali við fréttastofu að nú sé unnið að því að skipuleggja hvernig fjarkennslu verður háttað í næstu viku.

Kennarinn sem greindist á laugardag hafði verið í skólanum á fimmtudag og föstudag. Í kringum 140 nemendur eru í sex bekkjum í 8.-10. bekk í Lindaskóla og samkvæmt kröfu frá rakningateymi almannavarna þurfti að senda þá alla í sóttkví, nema þá sem ekki voru í skólanum á fimmtudag og föstudag. Fyrst fengu foreldrar tölvupóst um að nemendurnir þyrftu að fara í tveggja daga úrvinnslusóttkví en síðan barst þeim tölvupóstur um að sóttkvíin yrði lengri. 

Guðrún segir að skólinn hafi gætt að sóttvörnum eftir fremsta megni, til dæmis með því að hólfa starfsfólk. Aðspurð hvort hún telji að koma þurfi í veg fyrir að einn kennari kenni öllum bekkjum unglingastigsins segir hún slíka ákvörðun vera í höndum sóttvarnalæknis. „Í fyrstu bylgjunni var meiri  hólfaskipting, nú er fyrst og fremst mælt með hólfun meðal starfsfólks og við höfum hólfað skólann niður eftir aldursstigum,“ segir hún

Þá segist hún ekki vita til þess að neinn þeirra sem nú er í sóttkví vegna kennarans hafi fundið fyrir einkennum. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV