Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfengisfrumvarp ýmist sagt menningarauki eða meinvaldur

11.10.2020 - 14:35
Bjórglas á bjórtunnu.
 Mynd: Stocksnap.io
Dómsmálaráðherra er ýmist hvattur til að láta frumvarp sitt til breytinga á áfengislögum niður falla eða því er fagnað sem mikilli réttarbót og menningarauka.

Tæplega hundrað umsögnum hefur verið skilað inn um frumvarpið en samkvæmt því geta framleiðendur áfengis selt neytendum vöru sína á framleiðslustað og í gegnum vefverslun. Umsagnarfrestur um frumvarpið rennur út á morgun.

Fjöldi lítilla framleiðenda og veitingastaða hafa mælt með samþykkt frumvarpsins. Aðrir hafa varað við auknu aðgengi að áfengi. Í jákvæðum umsögnum má sjá að fólki þyki menningarauki að því auk þess sem samkeppnisstaða smærri íslenskra áfengisframleiðenda batni mjög verði það að lögum.

Meðal tillagna í athugasemdum er að litlar landsbyggðarverslanir fái að hafa milligöngu um póstverslun með áfengi. Þannig fengju viðskiptavinir áfengi á sama verði og í vínbúð á höfuðborgarsvæðinu og dreifbýlisverslun fengi álagninguna í sinn hlut. Vísað er til samskonar fyrirkomulags sem sagt er hafa verið við lýði í Svíþjóð frá því um mitt síðasta ár.

Aðalsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri IOGT á Íslandi hvetur dómsmálaráðherra til að leggja frumvarpið ekki fram, í umsögn sinni. Aðalsteinn segir áfengi vera eina helstu hindrun sjálfbærrar þróunar mannkyns og það hafi neikvæð áhrif á umhverfi, efnahag og samfélag.

Auk þess stefni áfengi mannauði í voða, grafi undan hagvexti, veiki innviði samfélagsins og valdi byrði á heilbrigðiskerfinu.

Aðrir andstæðingar frumvarpsins segja áfengi meðal annars stuðla að vannæringu og sjúkdómum af ýmsu tagi. Jafnframt er varað við að aðgengi unglinga að áfengi geti orðið óheftara með tilkomu laganna og að áfengi valdi glundroða og óhamingju í fjölskyldum.