Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vopnahlé samþykkt í Nagorno-Karabakh

10.10.2020 - 00:51
epa08732112 A handout photo made available by the Russian Foreign Affairs Ministry shows (L-R) Azerbaijan's Foreign Minister Jeyhun Bayramov, Russian Foreign Minister Sergei Lavrov and Armenian Foreign Minister Zohrab Mnatsakanyan during trilateral talks on Nagorno-Karabakh situation in Moscow, Russia, 09 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - RUSSIAN FOREIGN AFFAIRS MINISTRY
Armenar og Aserar samþykktu vopnahlé og eru reiðubúnir að hefja efnislegar viðræður um Nagorno-Karabakh. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, greindi frá þessu í kvöld. 

Vopnahléið tekur gildi í hádeginu á morgun að staðartíma, að sögn Lavrovs. Þá segir hann efnislegar viðræður framundan um friðsama lausn í héraðinu, eins fljótt og auðið er. 

Átök ríkjanna hafa nú staðið yfir í um tvær vikur. Hundruð hafa látið lífið, þar af tugir almennra borgara. Um helmingur íbúa Nagorno-Karabakh hraktist frá heimilum sínum vegna bardaganna, um 75 þúsund manns.

Vladimír Pútín boðaði utanríkisráðherra Armeníu og Aserbaísjans til friðarviðræðna í Moskvu í gær. Áður hafði utanríkisráðherra Aserbaísjans hitt erindreka Frakklands, Bandaríkjanna og Rússlands í Genf. Utanríkisráðherra Armeníu neitaði að vera með á þeim fundi, og útilokaði þá viðræður við Asera á meðan bardagar geisuðu í héraðinu. Þess í stað hélt hann til fundar við Lavrov.

Deilt hefur verið um héraðið áratugum saman, og oft slegið í brýnu á milli Asera og Armena vegna þess. Héraðið tilheyrir Aserbaísjan, en er að mestu byggt Armenum.