Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vonast eftir efnislegri umræðu um ákvæði í frumvörpunum

10.10.2020 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd: RUV - RÚV
Feneyjanefnd Evrópuráðsins telur í áliti sínu, sem birt var í gærkvöld, að í tillögum um breytingar á stjórnarskránni sé of mikið vald framselt í hendur löggjafans og að samræma þurfi ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur reglum um synjunarvald forsetans. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur mesta áherslu á að Alþingi ræði efnislega um inntak ákvæða í stjórnarskrárfrumvörpunum.

„Já, við munum náttúrulega gefa okkur tíma til að fara yfir álit nefndarinnar og fara yfir frumvörpin út frá því. Síðan hefur staðið til í töluverðan tíma að eiga fund í hópi formanna flokkanna en það hefur dregist vegna veirufaraldursins,“ segir Katrín.

Hún segist vonast til þess að þegar smitum fækki verði hægt að funda með formönnum flokkanna og leggja fram frumvörpin á yfirstandandi þingi.  

Vonast eftir efnislegri umræðu

„Það sem ég legg mesta áherslu á er að Alþingi nái ákveðinni efnislegri umræðu um þessi ákvæði. Við höfum auðvitað varið töluverðum tíma í að ræða ferlið varðandi stjórnarskrárbreytingar og um það hefur verið hart deilt ekki síst á kjörtímabilinu 2009 til 2013. Ég vonast til að við getum núna fengið efnislega umræðu um inntak ákvæðanna. Ég veit alveg að þar verða ekkert allir sammála og það kann að vera mismunandi milli ólíkra ákvæða. En að minnsta kosti að við fáum afstöðu þingmanna til þeirra breytinga sem fram verða lagðar þ.a. fólk átti sig bara hreinlega á því hver hún er. Og þá er ég að tala um í raun og veru afstöðu til efnislegs inntaks,“ segir Katrín. 

Nefndin fagnar markmiðum breytinganna en kemur með ábendingar

Í gærkvöldi var svo birt tilkynning á vef Stjórnarráðssins um álit Feneyjanefndarinnar á stjórnarskrárfrumvörpunum. Nefndin lýsir yfir ánægju með markmið breytinganna. Meðal ábendinga nefndarinnar er að hún telur of mikið vald framselt í hendur löggjafans og að nánar ætti að kveða á um ýmis efnisatriði varðandi ráðherraábyrgð í stjórnarskrá. Of langt sé gengið í að mæla fyrir um sjálfstæði ríkissaksóknara líkt og um dómara væri að ræða.

Þá þurfi í ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur að samræma þau þeim reglum sem gildi um synjunarvald forseta og tryggja að Alþingi geti ekki samþykkt lög að nýju sem felld hafi verið í þjóðaratkvæðagreiðslu, að minnsta kosti ekki á sama kjörtímabili. Varðandi náttúruauðlindir þurfi að skýra frekar hvað átt sé við með þjóðareign í tengslum við hefðbundinn eignarrétt. Og varðandi umhverfisvernd þurfi að skýra betur hugtökin varúð og langtímasjónarmið byggð á sjálfbærni.

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV