Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Opnun strandar á borð Öryggisráðsins

epa07786747 Acting US Ambassador to the United Nations Jonathan Cohen speaks during the UN Security Council meeting in connection with the US missile development in violation of the Treaty on the Elimination of Medium and Small Range Missiles in New York, USA, 22 August 2019.  EPA-EFE/BRYAN R. SMITH
Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Óskað hefur verið eftir því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hlutist til vegna opnunar strandlengjunnar í bænum Varosha á sunnanverðri Kýpur. Ströndin hefur verið afgirt ásamt Famagusta hverfinu allt síðan Tyrkir réðust þangað inn árið 1974.

Kýpur-Grikkir urðu að flýja árásir Tyrkja á sínum tíma, og hefur svæðið verið algjör draugabær síðan. Um 150 þúsund urðu að flýja heimili sín, og hafa aldrei snúið aftur. Tyrkir segja það nauðsynlegt að hafa gripið inn í, þar sem yfirvöld í Grikklandi hafi ætlað að ræna völdum á eyjunni. Tyrkir hafi með innrásinni verndað minnihluta Kýpur-Tyrkja.

Til stendur að hefja á ný friðarviðræður á milli þjóðarbrotanna á eyjunni á næstunni. Tyrkir vilja tveggja ríkja lausn. Opnun strandlengjunnar hefur ýft gömul sár eyjaskeggja. Nicos Anastasiades, forseti syðri hluta eyjunnar, þar sem Kýpur-Grikkir eru í meirihluta, segir opnunina ólöglega og gróft brot á tilskipunum Sameinuðu þjóðanna. Josep Borrel, yfirmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, og Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lýstu báðir yfir áhyggjum sínum af aðgerðum Tyrkja, segir í Guardian.

Opnunin var tilkynnt með pompi og prakt á blaðamannafundi í Ankara í vikunni. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, var viðstaddur fundinn ásamt æðsta valdamanni stjórnar Kýpur-Tyrkja, Ersin Tatar. Ströndin verður opin frá níu á morgnana til fimm síðdegis á hverjum degi.

Fyrrum íbúar Varosha komu saman á landamærum gríska og tyrkneska hluta Kýpur og mótmæltu framferði nágranna sinna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV