Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lærisveinar Heimis steinlágu í bikarúrslitunum

Mynd með færslu
 Mynd: Al Arabi - Twitter

Lærisveinar Heimis steinlágu í bikarúrslitunum

10.10.2020 - 17:11
Heimir Hallgrímsson og hans menn í knattspyrnuliðinu Al-Arabi töpuðu sannfærandi fyrir Al-Sadd í bikarúrslitunum í Katar. Santi Cazorla fyrrum leikmaður Arsenal skoraði eitt marka Al-Sadd í leiknum.

Það var verðugt verkefni sem Heimir Hallgrímsson fyrrum landsliðsþjálfari og Eyjamaður fékk í leiknum í dag en Al-Sadd liðið er þjálfað af Xavi Hernandez fyrrum leikmanni Barcelona og spænska landsliðsins.

Aron Einar Gunnarsson gat ekki leikið með Al-Arabi en hann er sem stendur í landsliðsverkefni með íslenska landsliðinu og leikur gegn Dönum í Þjóðardeildinni á morgun.

Skemmst er frá því að segja að leiknum lauk með sannfærandi 4-0 sigri Al-Sadd þar sem Santi Cazorla skoraði þriðja mark liðsins og gerði endanlega út um vonir Al-Arabi manna. Þetta er fjórði leikur Cazorla fyrir Al-Sadd.