
Hressingarhæli nýtt í þágu lýðheilsu og geðræktar
Í fyrstu verður lögð áhersla á vinnu með börnum og ungmennum en þegar fram líða stundir er ætlunin er að halda námskeið og erindi á sviði geðræktar í húsinu.
Í tilkynningu frá Kópavogsbæ kemur fram að nýleg skýrsla Barnahjálparsjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sýni að styrkja þurfi félagsfærni íslenskra ungmenna. Jafnframt sé andleg vanlíðan ein helsta ástæða skertra lífsgæða að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
„Að nýta gamla hressingarhælið sem miðstöð fræðslu og færniþjálfunar á sviði geðræktar er gott og mikilvægt verkefni,“ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir sérfræðingur lýðheilsumála hjá Kópavogsbæ. Hún segir umræðu um geðrækt og andlega líðan sjaldnast hafa verið meiri en nú á tímum heimsfaraldurs.
„Börnin okkar og ungmenni hafa kallað eftir meiri sálfræðilegum stuðningi og þetta nýsköpunar og þróunarverkefni er eitt af því sem við ætlum að gera til að svara því kalli,“ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir.