Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aldursdreifing smita núna svipuð og í fyrstu bylgjunni

10.10.2020 - 13:01
Mynd með færslu
 Mynd: ÞórÆgisson - RÚV
Sóttvarnalæknir segir viðbúið að fólk sem smitaðist áður en sóttvarnaraðgerðir voru hertar greinist með veiruna næstu vikuna. Aldursdreifing smita er núna í líkingu við fyrstu bylgju faraldursins.

Ánægjulegt að sjá hærra hlutfall í sóttkví

87 smit greindust innanlands í gær. Meirihlutinn var í sóttkví, eða 57. „Maður er ekki að túlka svona sveiflur milli daga of sterkt, en þetta er allavega ekki upp á við eins og þetta lítur út og það er líka ánægjulegt að sjá að 65% þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

25 eru á spítala með COVID, þrír eru á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. 
Þórólfur segir að aldursdreifing smita sé núna í líkingu við fyrstu bylgju faraldursins. Það sé ekki lengur mestmegnis ungt fólk sem smitast. „Þetta er á öllum aldri. Ef maður skoðar aldursdreifinguna núna og í vetur þá er aldursdreifingin núna nokkuð svipuð og hún var.“ 

Hann segir mikilvægt að allir sinni persónulegum sóttvörnum og fylgi fyrirmælum til þess að hefta útbreiðslu faraldursins. Það geti tekið allt að tvær vikur að sjá árangur af hertum aðgerðum. „Meðgöngutíminn er allt upp í tvær vikur. Þannig að það er fólk sem hefur smitast áður en aðgerðirnar byrjuðu, það getur farið að veikjast núna,“ segir Þórólfur. „Það tekur eina til tvær vikur að sjá árangurinn af aðgerðunum og það sáum við líka í vetur að fyrstu 10 dagana eftir að við gripum til þessara hörðu aðgerða þá var svipaður daglegur fjöldi að greinast og það var ekki fyrr en eftir þann tíma að talan fór niður og ég býst við að við munum sjá eitthvað svipað núna.“

Fólk sem átti að vera í sóttkví var í vinnu

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að lögreglan hafi til rannsóknar mál þar sem grunur leikur á að fyrirtæki hafi gerst brotleg við sóttvarnarlög. Slík brot varða sekt allt að 250 þúsund krónum. „Það eru nokkur mál sem eru í rannsókn hjá lögreglunni varðandi að hugsanlega hafi ekki verið farið eftir sóttkvíarreglum í tengslum við starfsemina. Að fólk sem hafi átt að vera í sóttkví hafi verið í vinnu,“ segir Víðir.