Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þjóðkirkjan enn fjölmennust - en þar fækkar líka mest

09.10.2020 - 16:46
Hendur teygja sig til himins með skóg í bakgrunni
 Mynd: Stocksnap.io
Hátt í 28 þúsund Íslendingar voru skráðir utan trú- og lífskoðunarfélaga 1. október síðastliðinn. Það eru um sjö af hverjum hundrað landsmönnum.

Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands. Nú eru um fimmtán af hundraði með ótilgreinda skráningu trú- eða lífskoðana sinna.

Enn telur þjóðkirkjan flestar sálir eða ríflega 230 þúsund, næstfjölmennust er svo Kaþólska kirkjan með tæplega 15 þúsund og tíu þúsund tilheyra söfnuði Fríkirkjunnar í Reykjavík.

Þrjú trúfélög Múslima á Íslandi telja alls 1364, í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu eru 157 og Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni eru 754 sálir.

Mest hefur fækkað í þjóðkirkjunni en frá því í desember 2019 hafa ríflega þúsund yfirgefið hana og 249 kvöddu zuismann. Mest hefur fjölgað í Siðmennt á sama tíma eða um tæplega 450 og 308 hafa gengið til liðs við Ásatrúarfélagið.