Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Netsvindlarar herja á íþróttafélög

09.10.2020 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Lögreglan varar forsvarsmenn íþróttafélaga við útsmognum netsvindlurum. Nú þegar hafa nokkur félög orðið fyrir barðinu á netsvindli og tapað talsverðu fé. Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands, segir að netsvindlarar hafi herjað á íþróttahreyfinguna fyrir örfáum árum og nú virðist þeir vera farnir aftur á stjá.

Tölvupóstur til framkvæmdastjóra eða starfsmanns

Svik með tölvupóstum og beiðni um millifærslur er algengasti netglæpurinn. „Þetta er yfirleitt á þann hátt að þetta er póstur sem virðist koma frá annað hvort gjaldkera eða formanni til framkvæmdastjóra eða starfsmanns eða sjálfboðaliða, þar sem er óskað eftir því að upphæð verði millifærð yfir á erlendan reikning. Og svo þarf þetta að gerast mjög hratt og þannig hafa félög því miður stigið í gildruna,“ segir hún. Upphæðirnar hafi verið tiltölulega háar, miðað við veltu félaganna.  

Netsvindlararnir hafi augljóslega unnið mikla bakgrunnsvinnu enda sendi þeir sannfærandi tölvupósta með beiðni um millifærslur. „Það virðist vera að þeir sem standa að baki þessu séu með mjög ýtarlegar upplýsingar því félög með litla veltu hafa fengið tölvupóst með lágum upphæðum og félög með meiri veltu hafa fengið tölvupóst með hærri upphæðum,“ segir Auður Inga. 

1,5 milljarða tjón af völdum netsvindls síðustu þrjú ár

Í tilkynningu á vef UMFÍ segir að besta leiðin til að uppræta brot sem þessi sé að fylgja þeim ávallt eftir og tilkynna þau til lögreglu. Heildartjón á Íslandi vegna netsvindla síðustu þrjú ár nemi í kringum 1,5 milljörðum króna. Upphæðir sem fólk sé beðið um að millifæra séu gjarnan á bilinu frá 400 þúsund krónum upp í milljón.