Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Meiri og alvarlegri veikindi í farsóttarhúsum

09.10.2020 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
92 dvelja nú í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg og er meirihluti þeirra í einangrun. Nú eru tvö sóttvarnarhús í notkun en haldi faraldurinn áfram að sækja í sig veðrið þarf að fjölga þeim. Það gæti orðið í næstu viku.

Í fyrstu bylgju faraldursins þurftu samtals 50 manns að leita í sóttvarnarhúsið til að ljúka sinni einangrun eða sóttkví. Mun fleiri hafa leitað þangað nú. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður farsóttarhúsa RKÍ segir að núverandi húsnæði dugi ennþá, en ef smitum fjölgar áfram þurfi að opna nýtt farsóttarhús, jafnvel í næstu viku.  Hann segir að mun fleiri hafi neyðst til að leita til farsóttarhúsanna í þriðju bylgjunni.

„Við erum búin að vera með í kringum 560 einstaklinga hjá okkur núna í þessarri bylgju. Stór hluti þeirra sem eru hjá okkur í dag er sýktur og veikindin eru meiri og alvarlegri en þau voru í fyrstu bylgjunni, það verður að segjast alveg eins og er.“ segir Gylfi.