Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ítreka að ferðast aðeins í brýnni nauðsyn

09.10.2020 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Aðgerðarstjórn almannavarna á Norðurlandi vestra ítrekar að fólk takmarki ferðalög eins og kostur er. Að íbúar svæðisins fari ekki til höfuðborgarinnar né annara svæða þar sem þau geti verið útsett fyrir smiti. Þá eru höfuðborgarbúar beðnir að halda sig heima.

Þetta kemur fram á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra.  Mælst er til þess að öllum ferðum sem sé hægt að fresta sé aflýst þar til árangur af hertum sóttvarnarreglum sé kominn í ljós. Almenningur er beðinn að sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þessu eftir.

Stefán Vagn Stefánsson hjá aðgerðastjórninni segir þau hafa viljað ítreka þetta þar sem það sé föstudagur og helgin fram undan. „Við vitum það að það voru margir sem voru með plön um að fara suður og einhverjir sem ætluðu að koma norður og við erum að biðla til fólks að halda sig heima.“ Það hafi dregið úr umferð síðustu daga sem sé jákvætt.

Hann segir ekkert smit hafa greinst á Norðurlandi vestra í þessari þriðju bylgju faraldursins, þau þrjú smit sem séu skráð á landshlutann séu einstaklingar sem hafi komið þangað til þess að vera þar í einangrun.