Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íslendingar þurfa að sækja um dvalarleyfi í Bretlandi

09.10.2020 - 16:20
epa08585310 An empty tourist boat sails past Tower Bridge in London, Britain, 05 August 2020. After some four and a half months since lockdown, London, one of the most visited capital city's in the world remains eerily calm. The large drop off in tourism due to the Coronavirus pandemic and with the continued fears of a second wave tourists and Britons alike remain weary of visiting the capital.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Þeir tæplega þrjú þúsund Íslendingar sem búa í Bretlandi þurfa að sækja um sérstakt dvalarleyfi fyrir áramót, vilji þeir búa þar áfram. Geri þeir það ekki gætu þeir átt á hættu að vera vísað úr landi.

„Frá og með 1. janúar næstkomandi munu reglur EES um frjálsa för fólks ekki gilda um Bretland lengur, þar sem aðlögunartímanum lýkur og Bretar eru gengnir út úr EES-samstarfinu jafnframt því að vera gengnir út úr ESB,“ segir Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Lundúnum.

Engar undanþágur

Þetta þýðir að Íslendingar sem flytja til Bretlands þurfa að sækja um vegabréfsáritun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi breskra stjórnvalda, til að fá að dvelja í landinu. Þá þurfa þeir hátt í 3.000 Íslendingar sem búa í landinu að sækja um sérstakt dvalarleyfi.

„Og það er afar mikilvægt að íslenskir ríkisborgarar sem ætla að dvelja áfram eftir lok þessa árs sæki um þennan rétt fyrir lok þessa árs, áður en þetta ár er úti.“

Stefán Haukur leggur áherslu á að námsmenn sem hófu nám í Bretlandi í haust, en hafa ekki enn flust til Bretlands vegna heimsfaraldursins, hafi þetta í huga þar sem engar undanþágur verði gerðar fyrir þann hóp. 

„En ég held að það sé líka rétt að taka það fram að eftir áramótin, á nýju ári, verður áfram heimilt að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar ef það er í ferðamannatilgangi,“ segir Stefán Haukur.

Hér má lesa nánar um réttindi til áframhaldandi búsetu og dvalar í Bretlandi eftir áramót.