Margir kættust yfir hetjusögunni af Gunnlaugi, sem Vísir greindi frá í gær, kisunni sem skilaði sér heim eftir að hafa verið á flakki um landið í fjóra mánuði. Það urðu miklir fagnaðarfundir á heimilinu þegar Gunnlaugur kom aftur þótt eigendur hans séu ekki vissir um hvort hann var glaðari að sjá þau eða túnfiskinn sinn.
Á ferðalagi sínu fór Gunnlaugur yfir meira en 50 kílómetra. Hann er búsettur á Hofsósi en fannst í Varmahlíð í Skagafirði. Freyja Amble Gísladóttir, annar eigandi Gunnlaugs, segir að það hafi verið ótrúlegt að sjá hann aftur. Gunnlaugur gufaði upp í júní og fyrst héldu þau að hann hefði farið í stutta veiðiferð eins og hann er vanur. „En þegar það voru liðnir nokkrir dagar byrjuðum við að hafa áhyggjur af honum og fórum að leita.“ Þau bönkuðu upp á hjá öllum nágrönnum og leituðu um allt en fundu Gunnlaug hvergi. Í síðasta mánuði gáfust þau upp á leitinni og fengu sér kettlinga. Og í gær dró til tíðinda. „Við sjáum mynd á Facebook af Gunnlaugi, sem er fundinn í Varmahlíð, og þar er kona sem hefur hugsað um hann og gefið honum að borða í alla vega sólarhring.“
En þá er spurningin hvernig Gunnlaugur tók kettlingunum sem fluttu inn á heimilið að honum forspurðum. „Hann var kominn hálfa leið út á hlað með kettlingana og ætlaði að losa sig við þá,“ segir Freyja. „En ég held að þetta róist og hann taki þá í sátt. Þetta eru nú bróðir hans og frændi svo ég vona að þeir nái saman,“ segir Freyja.
Rætt var við Freyju Amble Gísladóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.