Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Eldsvoði í háhýsi í Suður-Kóreu

09.10.2020 - 04:36
Mynd: EPA-EFE / EPA
Að minnsta kosti 88 voru fluttir á sjúkrahús með reykeitrun eftir að eldur kviknaði í 33 hæða fjölbýlishúsi í borginni Ulsan í Suður-Kóreu seint í gærkvöld að staðartíma. Að sögn suðurkóresku fréttastofunnar Yonhap kviknaði eldurinn að öllum líkindum á tólftu hæð hússins, og breiddi fljótt úr sér upp hæðirnar 33.

Yfir 120 íbúðir eru í húsinu og urðu mörg hundruð manns að flýja eldsvoðann. Vitni segja eldinn hafa læst sig í ytra byrði hússins, mögulega einangrun, og þannig náð hraðri útbreiðslu. Um tíma náði eldurinn um allt húsið. Um tvær klukkustundir tók að ná tökum á eldsvoðanum, en ekki hafði tekist að slökkva í honum öllum í morgun. Glæður hafa náð að verða að eldi í hvassviðrinu í borginni. Slökkviliðsmenn leituðu lengi að fólki sem gæti hafa orðið eftir inni í húsinu. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV