Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Einhugur innan ríkisstjórnarinnar um sóttvarnaaðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segja að einhugur ríki innan ríkisstjórnarinnar um þær sóttvarnaaðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í.

Katrín Jakobsdóttir segir að samt hafi samkomutakmarkanir verið ræddar ýtarlega á ríkisstjórnarfundi í morgun: „Eðlilega, þær hafa mikil áhrif á samfélagið. Það hafa engar aðrar tillögur komið fram í ríkisstjórninni. Þannig að það er algjör eining um niðurstöðuna.“ Umræðurnar hafi frekar verið vangaveltur heldur en ósætti.

„Ég held hins vegar að það sé mjög heilbrigt að við eigum þetta samtal um sóttvarnaráðstafanir, og ekki síst þegar þær teygjast á langinn eins og raunin verður. Og ég held að við munum sjá fram á það meðan að ekki er komið bóluefni og á meðan veiran virðist ennþá vera á fullum krafti í samfélagi okkar, þá verðum við að reikna með því að hér verði áfram sóttvarnaráðstafanir.“

Mynd: RUV / RÚV

Bjarni Benediktsson segir að það sé 100 prósent stuðningur á bak við aðgerðirnar innan ríkisstjórnarinnar. „Það sem hefur verið að gerast yfir tíma hins vegar er að við höfum fengið efni og upplýsingar og reynslu sem hefur leitt til þess að við höfum rætt málin ýtarlegar. Og við lítum á það sem okkar hlutverk að horfa á allar aðgerðir sem eru inngrip inn í líf fólks og fyrirtækja, og aðgerðir sem eru ætlaðar til að vernda heilsu fólks. Við þurfum að líta á þær gagnrýnum augum og spyrja spurninga. Og það tel ég að hafi verið mikill styrkur þessarar ríkisstjórnar að fara í gegnum slíka umræðu,“ segir hann. 

Mynd: RÚV / RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV