Djokovic og Nadal mætast í úrslitum Opna franska

epa08732928 Novak Djokovic of Serbia in action against Stefanos Tsitsipas of Greece during their men’s semi final match during the French Open tennis tournament at Roland ​Garros in Paris, France, 09 October 2020.  EPA-EFE/JULIEN DE ROSA
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Djokovic og Nadal mætast í úrslitum Opna franska

09.10.2020 - 20:38
Síðari undanúrslitaviðureigninni á Opna franska meistaramótinu í tennis lauk í kvöld. Þar hafði Serbinn Novak Djokovic betur gegn Grikkjanum Stefanos Tsitsipas í maraþonviðureign. Það verða því tveir risar sem mætast í úrslitum á sunnudag; Djokovic og Nadal.

Novak Djokovic byrjaði vel gegn Stefanos Tsitsipas á leirnum á Roland Garros-vellinum í París í kvöld. Djokovic vann fyrsta settið 6-3 og annað settið 6-2. Tsitsipas sótti í sig veðrið í þriðja settinu. Þar skiptust þeir félagar á að ná stigum en Tsitsipas vann að lokum settið eftir upphækkun, 7-6, og þá vann Grikkinn fjórða settið 6-4. Það þurfti því oddasett til að knýja fram sigurvegara. Þrátt fyrir erfið tvö sett á undan setti Djokovic í fluggírinn í fimmta settinu og vann það örugglega, 6-1.

Djokovic, sem situr nú í efsta sæti heimslistans, hefur 17. sinnum fagnað sigri á risamóti. Rafael Nadal, sem fyrr í dag komst í þrettánda sinn í úrslit á Opna franska, hefur 19. sinnum unnið risamót og getur jafnað met Rogers Federers, sem 20. sinnum hefur fagnað sigri á risamóti, með sigri á sunnudag.

Rafael Nadal er óneitanlega talinn líklegri til sigurs á sunnudag en Nadal, sem gengur undir gælunafninu Konungur leirsins, hefur ekki enn tapað setti á Opna franska í ár.