Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Búist við svipuðum fjölda smita - Fólk haldi sig heima

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. - Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hvetur fólk til að halda sig heima um helgina og vera sem minnst á ferðinni. Rætt var við Víði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Nú eru 846 einstaklingar í einangrun vegna COVID smits og hertar aðgerðir hafa tekið gildi. Víðir segir að þótt staðfestar tölur gærdagsins séu ekki komnar virðist fjöldi smita vera svipaður og undanfarna daga. Því reyni nú mjög á og fólk þurfi að vanda sig sérstaklega vel þessa helgina.

Hann hvetur fólk því til að hægja á lífi sínu og vera eins lítið á ferðinni og mögulegt er. Víðir undanskilur þó nauðsynlegar ferðir á borð við það að ganga frá sumarbústöðum fyrir veturinn. „Eigum við ekki bara að vera með okkar nánustu í rólegheitum, spila og lesa góða bók.“

Víðir kveður fólk almennt hlusta á skilaboð yfirvalda og segist hafa fengið mjög sterk viðbrögð síðustu tvo daga. Allir séu orðnir þreyttir, eins og viðbúið var, en allir séu tilbúnir í verkefnið. Að við ætlum að vinna þetta í sameiningu.

„Við vorum tilbúin undir að þurfa að tala mjög skýrt og vorum búin að undirbúa okkur vel undir að gefa tilmæli umfram reglur. Mín tilfinning að við séum tilbúin að taka þessa brekku“.

Aðspurður segir Víðir að þreyta og „óhlýðni“ hafi sést best í hegðun fólks, búðir og veitingastaðir hafi til að mynda verið full af fólki, fólk hafi verið á þvælingi um allt. Hann fullyrti að bylgjan hefði ekki getað breiðst jafn hratt út og raun bar vitni nema vegna þess að fólk slakaði mjög á.

„Allir geta farið eftir tilmælum og reglum og þá náum við böndum yfir þetta,“ segir Víðir. Þá munum við ná þessu. Víðir telur að samfélagið þurfi að búa sig undir að ástandið versni áður en það batnar, þannig sé staðan um allan heim. Hann vonast þó til að sjá árangur af aðgerðum fyrr en síðar, að það lagist vegna hertra ráðstafana.

Víðir nefndi að til að ná hjarðónæmi þyrfti um 60% en á Íslandi hefðu um 4% öðlast mótefni. „Við verðum að gæta meðalhófs en stundum þarf að taka harkalega á því til að ná árangri. Allir þurfa að leggjast á árarnar til að faraldurinn gangi yfir á sem skemmstum tíma“.

Víðir telur að Ísland verði lengi að vinna sig út úr afleiðingum faraldursins en hann sé langstærstu hamförum sem tekist hefur verið á við í nútímanum. Í öllum hamförum liggi þó tækifæri og nú sé mögulegt að laga margt sem hefði verið hægt að hafa öðruvísi.

„Við þurfum að koma samfélaginu í gang eins og hægt er, sem byggist á hvernig hverjum og einum tekst að vinna úr þessu,“ segir Víðir. Faraldurinn sé miklu nær mörgum en var í vor, fólk þekk fleiri sem eru smitaðir eða í sóttkví en í vor.

„Veiran er óútreiknanleg, lævís og læðist aftan að okkur, það á eftir að rýna og læra hvað klikkaði. Við þurfum að horfa í eigin barm um hvort við höfum hegðað okkur skynsamlega. Maður slakaði heilmikið á í sumar og vonaðist til að lenda ekki í þessari stöðu aftur“, sagði Víðir Reynisson aðspurður um hvað hafði farið úrskeiðis.

Hann vildi þó ekki fullyrða að það hefðu verið mistök að hvetja fólk til ferðalaga innanlands í sumar. „Stærsta bylgjan núna er á höfuðborgarsvæðinu þannig að ferðalögin virðast ekki hafa haft mikil áhrif.“