Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tilþrifalitlar kappræður varaforsetaefnanna

epa08728393 US Democratic vice presidential nominee Senator Kamala Harris (L) and US Vice President Mike Pence (R) wave at the conclusion of the vice presidential debate at the University of Utah in Salt Lake City, Utah, USA, 07 October 2020.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kamala Harris hóf kappræður varaforsetaefnanna í Bandaríkjunum í nótt með þeim orðum að bandaríska þjóðin hafi orðið vitni að mesta klúðri nokkurrar bandarískrar stjórnar í sögunni. Þar vísaði hún í aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur orðið rúmlega 210 þúsund Bandaríkjamönnum að bana. Hún sagði núverandi stjórn hafa fyrirgert rétti sínum til endurkjörs með frammistöðu sinni.

Eins og við mátti búast beindi Harris orðum sínum nokkuð oft að aðgerðum núverandi stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Mike Pence, varaforseta, þótti nóg um og gagnrýndi Harris fyrir að efast um gagnsemi bóluefnis við kórónuveirunni undir stjórn Trumps. Harris sagðist vera tilbúin að taka við bóluefni ef Anthony Fauci gefur grænt ljós á það, en ekki ef Trump er einn um að segja það tilbúið.

Komu sér undan spurningum stjórnandans

Meginþema kappræðnanna var ef til vill hversu fimlega varaforsetaefnin komu sér undan því að svara spurningum stjórnandans Susan Page. Um tíma virtust þau Harris og Pence sjá sjálf um umræðuefnið, og var Pence farinn að spyrja Harris spurninga um allt annað efni en Page bar upp.

Stjórnarandstaðan reynt að ógilda síðustu kosningar

Meðal annarra málefna sem báru á góma voru skattamál, laust sæti í hæstarétti Bandaríkjanna, orkumál og hvað gerist að kosningunum loknum. Pence vék sér frá því að svara hvað hann geri ef Trump neitar að yfirgefa Hvíta húsið að loknum kosningum ef í ljós kemur að hann tapar. Þess í stað talaði hann um að hann sjái fyrir sér að þeir vinni kosningarnar, og að stjórnarandstaðan hafi varið síðustu þremur og hálfu árinu á þingi við að reyna að ógilda síðustu kosningar. 

Settlegri kappræður

Kappræður þeirra voru öllu settlegri en forsetaframbjóðendanna í síðustu viku. Enda er svo sem búist við því þegar varaforsetaefnin eiga í hlut. Stjórnandinn Page beindi þó spurningu, sem ef til vill einhverjir hafa velt fyrir sér, um það hvort komin væri áætlun um framhaldið. Verði Joe Biden kjörinn forseti verður hann sá elsti í sögunni, 77 ára gamall. Trump er sjálfur ekkert unglamb, 74 ára og að jafna sig af kórónuveirunni. Hvorugt þeirra vildi tjá sig nokkuð um það. Pence talaði um bóluefni og Harris um uppvöxt sinn og feril.

Fluga stelur senunni 

Eftir fremur tilþrifalitlar níutíu mínútur birtist örlítill senuþjófur á sviðinu. Húsfluga settist á koll Pence undir lokin og var þar í um tvær og hálfa mínútu, við talsverða kátínu áhorfenda ef marka má viðbrögð á samfélagsmiðlum.
Forsetaframbjóðendurnir Trump og Biden eiga að mætast í sjónvarpssal eftir viku. Hvort af þeim viðburði verður kemur í ljós á næstu dögum, því Trump er jú enn að jafna sig af COVID-19.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV