Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Smit hjá rannsóknardeild lögreglunnar

Lögreglustöðin við Hverfisgötu hefur verið lagfærð að utan.
 Mynd: RÚV - Þ
Tveir eru í einangrun og 23 í úrvinnslusóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist hjá rannsóknarlögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir að smitin hafi ekki áhrif á aðra starfsemi þar sem lögreglunni hafi verið skipt upp í 19 sóttvarnahólf á sunnudag þegar neyðarstig almannavarna var virkjað.

Greint er frá smitunum í stöðuskýrslu almannavarna sem send var fjölmiðlum í dag.

Þetta er í fyrsta skipti síðan í vor að slík stöðuskýrsla er send og það gefur einhverja vísbendingu um hversu alvarleg staðan er í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Ásgeir segir engan grun um að lögreglumennirnir hafi smitast við störf.

í skýrslu almannavarna kemur fram að ábendingar hafi borist um brot á grímuskyldu í Vestmannaeyjum. Þá hafi menn á Austurlandi áhyggjur af hópferðum frá höfuðborgarsvæðinu. 

Af þeim 83 sem eru í farsóttahúsum eru 53 í einangrun. Mikið álag er sagt vera á rakningateyminu og segir í skýrslunni að unnið sé að úrbótum í húsnæðismálum og aukinni mönnun. Fram kom á upplýsingafundi í dag að rakningateymið væri aðeins eftir á í rakningu smita.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV