Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skortir sárlega fleiri hjúkrunarrými

08.10.2020 - 13:53
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þingfundur hófst hálfellefu og það var víða komið við þegar fjármálaráðherra var spurður út úr í óundirbúnum fyrirspurnum. Helga Vala Helgadóttir formaður velferðarnefndar spurði hann út í mönnunarvanda Landspítalans og fráflæðisvanda sjúkrahússins.

 

Ráðherra segir einsetningu, sem kallast á mannamáli eins manns herbergi, hafa verið gríðarlega krefjandi verkefni, þjóðin sé að eldast og gera þurfi langtímaáætlun um að gera betur því ein fjárlög leysi ekki vandann.

„Ríkisstjórnin tímir ekki að setja nægilegt fjármagn til hjúkrunarheimilanna sem sveitarfélögin eru nú eitt af öðru að skila til baka til ríkisins.Daggjöldin sem er skammtað af hæstvirtri ríkisstjórn með hverjum heimilismanna inná hjúkrunarheimili  standa engan veginn undir þeirri þjónustu sem þar er veitt.“ sagði Helga Vala Helgadóttir.

 

„Við höfum verið að gera marga góða hluti og erum með sérstaka áherslu í stjórnarsáttmálanum á frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila og það tekur tíma. En út af fyrir sig rétt hjá háttvirtum þingmanni að okkur sárlega skortir fleiri rými, við þurfum fleiri rými, það gengur ekki að hafa þennan fráflæðisvanda eins og hann er.“ sagði Bjarni Benediktsson.

 

Ljóst að síðasta orðið hefur ekki verið sagt í þessu máli enda vandinn gríðarlegur. Áður spurði Bergþór Ólason fjármálaráðherra um afstöðu hans til þess að minni einkareknir fjölmiðlar gætu fengið hluta af nefskatti RÚV.

Bjarni sagði fullt tilefni til að ræða stöðu RÚV og sérstaklega á auglýsingamarkaði. Hann sagði þá hættu fyrir hendi að minni fjölmiðlar fölnuðu og visnuðu í skugganum af RÚV, staðan væri mjög ójöfn. Bjarni er málshefjandi í öllum málum sem eru á dagskrá Alþingis í dag og nú er það bandormurinn svokallaði sem er til umræðu.