Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Siglfirðingar uggandi yfir innbrotum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki hefur tekist að hafa hendur í hári innbrotsþjófs sem farið hefur inn í hús á Siglufirði síðustu daga. Íbúi sem sá einhvern reyna að fara inn í bíla í nótt segir bæjarbúa uggandi.

Fyrstu innbrotin áttu sér stað fyrir þremur dögum. Síðan þá hefur verið farið inn í að minnsta kosti fjögur hús á Siglufirði og verðmætum stolið úr einu þeirra. Á tveimur stöðum komu húsráðendur að innbrotsþjófnum og hröktu burt. Hann hefur ekki brotið sér leið inn í hús heldur fer hann inn þar sem er ólæst. Lögreglan á Norðurlandi eystra hvetur íbúa Fjallabyggðar til að læsa húsum sínum og geymslum. Hún segir rannsókn málsins í fullum gangi og taldi nóttina hafa verið tíðindalitla þegar fréttastofa spurði frétta í morgun.

Vaknaði við hljóð um miðja nótt

Bylgja Hafþórsdóttir, íbúi á Siglufirði, hafði aðra sögu að segja fréttastofu; „Ég hrökk upp klukkan hálf fjögur við að einhver væri að reyna að komast inn í Benz-jeppann hjá Halldóri og Hönnu. Bílunum er lagt fyrir utan svefnherbergisgluggann hjá mér, ég er í kjallaraíbúð og glugginn var opinn. Þegar hann var búinn að reyna við bílinn þeirra þá fór hann í minn og var ekki einu sinni að reyna að fara hljóðlega. En þar sem ég er í kjallaraíbúð þá náði ég ekki að sjá neitt í gegnum gluggana og þegar ég kom inn í stofu og var að kíkja í gegnum gluggana þar þá sá ég engan.“ Hún segist hafa verið lengi að sofna aftur eftir þetta enda hafi þetta vakið upp mikið óöryggi og ónotatilfinningu.

Líklega sama manneskjan

Hún segist ekki hafa hringt í lögregluna enda verið svo syfjuð og vitlaus að hún hafi ekki áttað sig á því hvort það væri beint lögbrot að reyna að opna dyrnar og labba svo í burtu. Hún sé hins vegar búin að ræða málið við fleiri og ætli að hringja og láta lögregluna vita af þessu. Það sé ekki hægt að fullyrða að þetta sé sama manneskjan og hafi verið að fara inn í hús en það megi leiða líkur að því. 

Þrjóskur að halda sig á sama svæðinu þrjá daga í röð

Hún segir stemminguna á Siglufirði mjög óvenjulega enda lendi Siglfirðingar ekki í neinu svona að öllu jöfnu: „Hérna eru allir vanir því að geta haft dyrnar opnar og eru kærulaus með bílana.“ Bæjarbúar séu þó ekki óttaslegnir, frekar hissa og óöryggir. „Og mér finnst hann mjög þrjóskur þessi aumingja maður eða kona eða hvað það er, að halda sig hérna á sama svæðinu þrjár nætur í röð,“ segir Bylgja að lokum. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV