Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Risadagur í sýnatökum - „Fólk þarf bara að bíða“

Mynd: Höskuldur Kári Schram / Höskuldur Kári Schram
Gríðarlega langar raðir eru nú til að komast í skimun í aðstöðu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Suðurlandsbraut. Nú á tíunda tímanum náði röð upp Ármúla. Fréttastofa hefur haft veður af því að einstaklingar hafi hætt við að fara í röðina af ótta við smithættu. 

Agnar Darri Sverrisson, verkefnisstjóri yfir sýnatökum, segir í samtali við fréttastofu að um sé að ræða gríðarlegan fjölda af svokölluðum sóttkvíarsýnum. Það eru þeir einstaklingar sem eru í sóttkví og eiga þess kost að fara í skimun eftir sjö daga til að stytta sóttkví, sé sýnið neikvætt.

„Þetta er risadagur í dag,“ segir Agnar, en reynt sé að taka á móti hundrað manns á korteri. Hann var ekki viss hvað mætti eiga von á mörgum í skimun í dag, en bjóst við því að morgundagurinn yrði öllu rólegri. Hann segir að heilsugæslan hafi nægan mannskap til að bregðast við þessum fjölda.

„Jájá, við bognum ekkert við þetta. Fólk þarf bara að höndla það að bíða í smá röð,“ segir Agnar Darri. 

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglstjóra, staðfestir við fréttastofu að smitin séu yfir hundrað sem greindust í gær. 94 hafi greinst innanlands og af þeim voru aðeins 40 í sóttkví. 8 reyndust vera með kórónuveiruna á landamærunum.  Mikill meirihluti smitanna var á höfuðborgarsvæðinu.  

Upplýsingafundur almannavarna er á dagskrá klukkan ellefu í beinni í sjónvarpi, á vef og Rás 2.

Mynd með færslu
 Mynd: Höskuldur Kári Schram
Löng röð var eftir því að komast í skimun í morgun.