Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Refavanki greinist í kanínum

08.10.2020 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Tilkynning barst nýverið til Matvælastofnunnar frá Dýraspítalanum í Víðidal um að snýkjudýr sem veldur sjúkdómi sem nefnist refavanki hafi greinst í tveimur kanínum. Gæludýraeigendur eru beðnir um að fylgjast með hvort dýr þeirra sýni einkenni sjúkdómsins á næstunni.

Matvælastofnun greinir frá þessu á vefsíðu sinni í dag. Sníkjudýrið sem nefnist Encephalitozoon cuniculi finnst í villtum dýrum hér á landi en þetta er fyrst staðfesta smitið í kanínum hér á landi. Ekki þykir ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafanna vegna þessa smits. 

Sníkjudýrið greindist í refum á níunda áratug seinustu aldar og í minkum og músum. Hefur sjúkdómurinn sem einfrumungurinn veldur verið kallaður „refavanki“ á íslensku, en erlendis gengur hann undir nafninu nosematosis  eða encephalitozoonosis. Einfrumungurinn finnst í frumum hýsils og dreifist með því að mynda gró sem geta borist út með þvagi eða saur. Geta gróin verið smithæf í umhverfi í langan tíma. Þegar gróin berast í nýjan hýsil t.d. með vatni eða fóðri, þá opnast gróin með smitefninu sem finnur sér leið inn í frumur hýsilsins og byrjar að fjölga sér upp á nýtt. Um 1-2 mánuðir líða oftast áður en nýr hýsill skilur út smithæf gró. Smit getur einnig borist frá móður til afkvæma á meðgöngu.

Yfirleitt sýna dýr sem smitast engin einkenni en ef einkenni koma fram eru þau aðallega frá taugakerfi, augum eða nýrum. Einkenni frá taugakerfi getur verið skekkt höfuðstaða, óstöðugleiki, að dýrin gangi í hring eða augnhreyfingar verða óeðlilegar. Hvítur massi getur sést í augum dýranna, aukin þrýstingur eða sýking í auganu. Einkenni eru oftast aðeins í öðru auganu og dýrið annars einkennalaust. Einfrumungurinn sækir einnig í nýru og getur valdið bráðri eða langvinnri nýrnabilun.

Sjúkdómseinkenni geta vakið grun um smitsjúkdóminn, en oftast þarf annað hvort krufningu og vefjaskoðun, greiningu á DNA sníkjudýrsins í vef eða líkamsvessum eða mótefnamælingu í blóði til að staðfesta smit. Um meðhöndlun er lítið vitað. Aðallega er hægt að beita stuðningsmeðhöndlun til að milda einkenni. Hægt er að fyrirbyggja eða draga úr líkum á smiti með sníkjudýralyfjum og með því að gæta að hreinlæti við fóðrun dýranna.