Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íslenskir læknar á umdeildum undirskriftalista

08.10.2020 - 15:31
epa08729476 People aboard a bus wear protective face masks in Rome, Italy, 08 October 2020.  The Italian cabinet met to extend Italy's COVID-19 state of emergency until 31 January and approved a decree with new measures to combat the spread of the coronavirus.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Yfir fimmtíu nöfn sem skráð eru á Íslandi hafa skrifað undir umdeildan undirskriftalista á netinu þar sem ráðamenn um allan heim eru hvattir til að hverfa frá hörðum aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar og reyna frekar að ná fram hjarðónæmi. Augnlæknir, lýtalæknir og tannlæknir eru meðal þeirra sem hafa skráð sig á listann sem og forkólfar úr viðskiptalífinu.

Listann má nálgast hér.

Í umfjöllun BBC kemur fram að nærri 6.000 sérfræðingar hafi skrifað undir listann.

Kallað er eftir því að aukin áhersla sé lögð á að vernda viðkvæmustu hópana en heilbrigðu fólki leyft að lifa eðlilegu lífi.  Þeir telja að aðgerðirnar sem gripið hefur verið til eigi eftir að hafa alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar. Þegar hjarðónæmi aukist minnki líkurnar á smiti, líka hjá þeim sem eru í áhættuhópum. Þá benda þeir á að börnum stafi meiri hætta af árstíðabundinni flensu en COVID-19.

Nokkrir læknar til viðbótar í Bretlandi hafa sent stjórnvöldum bréf þar sem þeir telja að ekki sé nógu mikil áhersla lögð á skaðleysi COVID-19 þegar teknar eru ákvarðanir. 

Á vef BBC kemur fram að hugmyndin um hjarðónæmi sé umdeild. Stephen Griffin, prófessor við háskólann í Leeds, segir til að mynda dæmi um að fólk sem hafi fengið væg einkenni sjúkdómsins hafi glímt við aukaverkanir um langt skeið.  Simon Clarke hjá háskólanum í Reading segir enn fremur ekki vitað hvort hægt sé að ná fram hjarðónæmi.  Ekki sé vitað hversu lengi fólk sé ónæmt fyrir veirunni eftir að hafa náð sér af sýkingu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, var spurður út í þetta á upplýsingafundi í dag og sagðist telja ótrúlegt ef læknar héldu því fram að besta leiðin væri hjarðónæmi.  Ekki þyrfti mikið ímyndunarafl til sjá hvað myndi gerast hér á landi ef faraldurinn myndi fjórfaldast eða fimmfaldast. Hvað þá ef ekkert væri gert og hér væru 2.000 tilfelli á dag. 

Heilbrigðiskerfið yrði yfirkeyrt og útkoman yrði hræðileg. Þá tók hann dæmi af Svíþjóð, sem margir litu til, þar sem aðeins tíu prósent fólks á verstu svæðunum hefðu myndað ónæmi.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV