Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hjálparsamtök fá 4,5 milljónir vegna aukinnar ásóknar

08.10.2020 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd fá 1,5 milljón króna hvert í styrk frá Reykjavíkurborg til að bregðast við aukinni ásókn í þjónustu þeirra vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Þetta var ákveðið á fundi velferðarráðs í gær.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður ráðsins, segir mikilvægt að samfélagið taki höndum saman um að hjálpast að á erfiðum tímum. „Margir eiga erfitt með að ná endum saman og því fannst mér rétt að styrkja þau félagasamtök nú, sem koma fólki til hjálpar með matargjöfum, til að mæta þeim aukna fjölda sem til þeirra leitar,“ segir hún.

Mun meira hefur verið um matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands síðustu mánuði en á sama tíma fyrir ári. Ástandið hefur verið einna verst á Suðurnesjum þar sem langar raðir hafa myndast fyrir utan húsakynni samtakanna.