Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grunnskólakennarar þurfi að finna fyrir ákveðnu öryggi

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður félags grunnskólakennara, í fréttum 27. ágúst 2020.
 Mynd: RÚV
Formaður félags grunnskólakennara segir nýundirritaðan kjarasamning opna á sveigjanlegra starfsumhverfi fyrir kennara, en nýr samningur við Samband íslenskra sveitarfélaga var undirritaður á ellefta tímanum í gærkvöld.

„Við erum auðvitað bara afskaplega glöð að það hafi allir lagst á eitt að reyna að ná samningi, enda teljum við okkur vera í hlutverki þar sem mikið mæðir á okkur og við þurfum að finna fyrir ákveðnu öryggi til að vinna þessa vinnu sem við erum að standa frammi fyrir þessa dagana,“ segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.

Félagsmenn höfðu verið samningslausir síðan 1. júlí í fyrra, en nýi samningurinn gildir til ársloka 2021. Þorgerður segir nýja samninginn vera í samræmi við þá krónutöluhækkun sem felst í lífskjarasamningnum og samið hefur verið um við önnur stéttarfélög. 

Í viðræðunum gerði samninganefnd félagsins kröfur um sveigjanlegt starfsumhverfi fyrir kennara sem Þorgerður segir vera grundvöll fyrir samkomulaginu.

„Það er ekki hægt að hafa eina línu fyrir alla, hvort sem það eru kennararnir eða aðrir. Þetta byggir á samtali við skólastjóra um mikilvægi þess hvernig vinnutíma er ráðstafað.“

Þannig þetta opnar á meiri sveigjanleika?

„Já, þetta á að gera það. Þetta er reyndar að sjálfsögðu innan þess kjarasamnings sem er undirritaður og vinnutíminn er þar skilgreindur. En þetta er hins vegar skýr samþykkt um það að það eigi að nýta sveigjanleikann eins og mögulegt er, öllum til hagsbóta,“ segir Þorgerður.

Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum, en niðurstaða atkvæðagreiðslu þeirra þarf að liggja fyrir 23. október.