Borgir á tímum farsótta

Mynd: halla / halla

Borgir á tímum farsótta

08.10.2020 - 09:47

Höfundar

Lífslíkur manneskjunnar tóku hástökk eftir iðnbyltingu, þökk sé læknavísindunum og bættri hönnun í borgarlandslaginu. Saga holræsa og mengunarvarna er samofin borgarmenningu og það var ekki að ástæðulausu að háir hælar komust í tísku þegar miðaldastrætin voru full af skít.

Það er nokkuð magnað að ímynda sér að lífslíkur manneskjunnar, í hinum vestræna heimi, hafi aukist um hálfa öld á um 200 árum. Á tímum Rómarveldis mátti manneskjan búast við því að lifa í 25 ár en ef íbúar Feneyja miðalda náðu 33 ára aldri máttu þeir teljast heppnir. Um það leyti sem iðnbyltingin var að hefjast á þeim slóðum hafði sá aldur ekki hækkað neitt að ráði en hefur síðan stokkið upp í 80-85 ár. Sem sagt um hálfrar aldar stökk á um 200 árum. Á bak við þessar framfarir liggur að margra mati aðallega tvennt. Í fyrsta lagi framþróun læknavísinda og í öðru lagi framþróun á sviði verkfræði, hönnunar og arkitektúrs. 

Töluvert hefur verið um það rætt síðastliðið misseri að til þess að komast yfir farsóttartímana sem við lifum nú, og búa okkur undir þá sem fylgja á eftir, þurfi ekki bara bóluefni heldur líka nýja tegund af arkitektúr.

Arkitektar á mikilsvirtum stofnunum víðsvegar um heiminn hafa bent á þörfina sem skapast hefur fyrir að hugsa byggingar og almenningsrými upp á nýtt. Plágurnar hætta ekki að koma þó við byggjum öðru vísi, en það hvernig við byggjum og búum hefur stórkostleg áhrif á það hvernig við lifum. Og mörg dæmi úr sögunni eru til vitnis um það.

Fyrr á öldum var borgarbúseta ávísun á styttra líf, borgir voru í raun dauðgildrur. Hraður vöxtur borga á tímum iðnbyltingarinnar gerði þær að skítugum gróðrarstíum fyrir alls kyns pestir, og ekki voru þær hreinar fyrir. Með hröðum vexti borganna barst hver faraldurinn á fætur öðrum um heiminn, sér í lagi í stórborgum þar sem taugaveiki og kólera voru svo grafalvarlegt  heilbrigðisvandamál að hafist var handa við að endurhugsa leiðir til að losa borgir við allan skítinn. Opnu holræsin sem fluttu skólp, hvers kyns rusl, dauð dýr og jafnvel lík, út í næstu á eða í sjóinn hurfu með tímanum og við tóku lengri skólplagnir og svo dælustöðvar eins og við þekkjum í dag. 

Þegar svarti dauði var í hámarki í Evrópu um miðja fjórtándu öld dró hann um þriðjung íbúa álfunnar til dauða. Um alla álfuna var fólk óttaslegið og dauðhrætt við pláguna sem virtist í hugum margra vera refsing guðs við syndugri jarðvist manneskjunnar. Margir flúðu skítugar borgirnar og fundu athvarf í náttúrunni. Þekktustu pláguflóttamenn sögunnar eru líklegast ungmennin úr Tídægru Boccaccios sem fundu sér skjól hlíðunum utan við Flórens þar sem þau styttu sér stundir með sagnagleði og lífsins lystisemdum.

Um svipað leiti, árið 1377, fyrirskipaði borgarstjórn Ragusa í Dalmatíu, sem nú er Dubrovnik í Króatíu, að allir sem kæmu sjóleiðina til borgarinnar þyrftu að fara í 30 daga sóttkví á eyju rétt undan ströndinni. Enginn fengi að koma inn fyrir borgarmúrana fyrr en útilokað þætti að viðkomandi bæri með sér pláguna. Þetta mun hafa verið fyrsta skipulagða sóttkvíin í Evrópu. Árið 1448 lengdi borgarstjórn Feneyja tímann í feneysku sóttkvínni  Lazzareto upp í 40 daga, einangrunin kallaðist því ekki lengur trentena, heldur cuarantena. Orð sem flestir þekkja í dag. 

Nánar var rætt um borgir, holræsi og farsóttir í Víðsjá og hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni hér fyrir ofan.