Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bjarni orðlaus eftir kennslustund Þorgerðar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar óttast að stjórnvöld muni ekki standa við samþykktir þingsins um að efla geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu. Á tímum faraldursins skipti sú þjónusta gríðarlega miklu máli. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vísar þessu á bug og segir ríkisstjórnina vera að gera mun betur.

Þetta var rætt á Alþingi í dag.

Þar sagði Þorgerður Katrín að flokkar, sem teldu sig vera hægrisinnaða, geti vel leyft sér að hugsa og tala og framkvæma velferð. „Ef það er bara efnahagslega hliðin sem að ráðherra tengir við þá get ég sagt honum að greiðari aðgangur og stuðningur við sálfræðiþjónustu hvar sem er í samfélaginu er eitt af þessum framsýnu málum á þessum tímum sem tekur utan um líðan þjóðar.“

Bjarni svaraði því til að hann vissi ekki hvað hann ætti að segja „eftir þessa ætluðu kennslustund í efnahagsmálum og stjórnmálum frá háttvirtum þingmanni.“ Fram hefði komið í fjármálaáætlun til fimm ára að fjármagn til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa yrði aukið um sjö milljarða.

 

 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV