Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Átök um sænska módelið

08.10.2020 - 08:49
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Ríkisstjórn Jafnaðarmanna í Svíþjóð gæti á næstunni neyðst til að setja lög sem veikja stöðu stéttarfélaga, en slíkt gengi þvert gegn flestu því sem flokkurinn stendur fyrir. Vinstriflokkurinn hótar því nú að fella stjórn undir forystu Jafnaðarmanna en hægriflokkarnir hafa lýst sig reiðubúna til að koma henni til bjargar.

Allt er þetta vegna umdeildra breytinga á vinnulöggjöf landsins sem sumir segja að marki endalok sænska módelsins. Það virðist margt öfugusnúið í stjórnmálunum í Svíþjóð þessi misserin. Eftir þingkosningarnar fyrir tveimur árum, varð löng stjórnarkreppa - aðallega vegna þess að Svíþjóðardemókratar - sem enginn vill vinna með - fengu hátt í fimmtung atkvæða. Og því hvorki hægri- né vinstriblokkin með meirihluta á þingi. Þessi undarlega staða hefur fætt af sér mörg undarleg afkvæmi. Til að mynda stjórn Jafnaðarmanna og Græningja sem varin er falli af þremur flokkum. Tveir þeirra - Frjálslyndir og Miðjuflokkurinn - eru hægriflokkar og máttu þola miklar kárínur fyrir að styðja stjórnina. Flokkarnir fengu þó líka nokkuð fyrir sinn snúð.

Nauðbeygð til að breyta vinnulöggjöf

 Og þar kom að því sem kannski er undarlegasta afkvæmi stjórnarkreppunnar: Breytingum á vinnumarkaðslöggjöf sem ríkisstjórninni hugnast alls ekki en gæti þó neyðst til að gera.  Svíar hafa lengi gumað af sérstöku sænsku módeli þegar kemur að vinnumarkaðnum; hefð sem rekja má allt aftur til loka fjórða áratugarins. Hún felur í sér að það eru aðilar vinnumarkaðarins - stéttarfélög og atvinnurekendur - sem ákveða hvernig honum er háttað - semja um laun, réttindi og skyldur og svo framvegis. En stjórnmálin koma helst hvergi nærri. Hér í Svíþjóð er talað um að þetta sé ein af ástæðum þess hve lítið sé um átök á sænskum vinnumarkaði.

Ríkari réttindi - lægri laun

 Og þótt laun hér í Svíþjóð séu nokkru lægri en í Danmörku eða Noregi, hvað þá á Íslandi, þá nýtur starfsfólk hér margskonar réttinda, sérstaklega þegar kemur að uppsögnum, sem eru mörgum Íslendingum kannski framandi.  Þannig er hér í gildi reglan síðastur inn - fyrstur út. Það er að segja: Þegar fólki er sagt upp störfum, þarf að fara eftir starfsaldri. Sá sem er með stystan starfsaldur er látinn fara fyrstu og svo koll af kolli. Frá þessu eru þó undanþágur - það má undanskilja tvo frá reglunni, í stærri fyrirtækjum. Svo má heldur ekki reka fólk að ástæðulausu. Og ástæðan þarf að vera hlutlæg og standast skoðun. Ef svo er ekki, getur stéttarfélag starfsmannsins neitað að fallast á uppsögnina og kært til félagsdóms. Á meðan verið er að leysa úr ágreiningnum, heldur starfsmaðurinn vinnunni og launum.

Breytingar á rétti við uppsögn

 Í samkomulagi um samstarf vegna núverandi ríkisstjórnar, í janúar 2019, lagði Miðflokkurinn Center áherslu á að breyta þessu. Stjórnvöld fengu virtan lögfræðing til að leggja fram tillögur og það gerði hann í vor.  Meðal þess sem lagt var til var að það yrðu fleiri undanþágur frá starfsaldursreglunni þegar kemur að uppsögnum - fimm undanþágur í stað tveggja. Og að fólk fengi ekki að halda starfi og launum meðan verið væri að ákvarða hvort uppsögn væri lögmæt heldur fengi bara greiddan uppsagnarfrestinn. Auk þess var lagt til endurmenntun yrði aukin og atvinnurekendur látnir bera ábyrgð á henni, og ýmislegt fleira.

Stríðsyfirlýsing segja verkalýðsfélögin

Tillögunum var ekki vel tekið. Það átti að tryggja að áfram ríkti valdajafnvægi á vinnumarkaðnum. Sagði Tobias Baudin, talsmaður stéttarfélagsins Kommunal, í samtali við sænska ríkissjónvarpið. En það er alls ekki þannig. Ef maður notar íþróttamál, þá þýða þessar tillögur stórsigur, 10-1, fyrir atvinnurekendur.  Þessar tillögur er litið á sem stríðsyfirlýsingu af stórum hluta stéttarfélaganna og stórum hluta af Jafnaðarmannaflokknum. Sagði Mats Knutson, fréttaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins.  Áður en þessar tillögur yrðu að lögum, fengu fulltrúar stéttarfélaga og atvinnurekenda tækifæri til að reyna að ná samkomulagi um breytingarnar.  Og höfðu tíma út september til að ná saman. Það tókst ekki. Viðræðurnar sigldu í strand, aðfararnótt 1. október.

Stjórnarsamstarfið í uppnámi

 Nú krefjast Frjálslyndir og Center þess að tillögurnar frá því í vor verði einfaldlega að lögum. Það sé það sem um var samið þegar ríkisstjórnin var mynduð. Nyamko Sabuni, formaður Frjálslyndra, sagði sænska ríkissjónvarpinu að ef þetta loforð yrði ekki efnt, þá væri verið að svíkja samkomulag flokkanna og þar með yrði ekki lengur neitt samkomulag um ríkisstjórnarsamstarf fyrir hendi. En Jafnaðarmenn virðast alls ekki vilja gera tillögurnar að lögum. Anders Lindberg, blaðamaður og leiðarahöfundur á Aftonbladet, sem er málgagn Jafnaðarmanna, segir að það sé útilokað að ríkisstjórn Jafnaðarmanna leggi fram tillögur á borð við þessar. Því þær skaði stéttarfélögin svo gríðarlega mikið. Tillögurnar feli í sér algjöra umbreytingu á valdahlutföllum á vinnumarkaðnum.  Lindberg segir að ef Center og Frjálslyndir þrýsti áfram á um málið, þá sé erfitt að sjá hvernig ríkisstjórnin geti setið áfram.

Stuðningsflokkurinn segir nei en stjórnarandstöðuflokkar já

 Og svo er það Vinstriflokkurinn. Sem fram til þessa hefur verið því næst valdalaus stuðningsflokkur ríkisstjórnarinnar. Þegar til stjórnarsamstarfsins var stofnað, gerðu Frjálslyndir og Center það í raun að skilyrði fyrir þátttöku sinni að Vinstriflokkurinn Vänster fengi engu að ráða. Og þó er það svo að stjórnin hefur ekki meirihluta atkvæða að baki sér nema með þingmönnum Vinstriflokksins. Sem nú hóta að fella hana.  Jonas Sjösted, formaður flokksins segir að ekki hægt að verja stjórn sem rústar afkomuöryggi vinnandi fólks.  En til þess að af því yrði, þyrftu hægriflokkarnir Moderatarna og Kristdemokraterna að taka þátt í að fella ríkisstjórna - sem flokkarnir vilja - en vegna lagabreytingar sem þeir eru fylgjandi. Það eru því margir sem eru í undarlegri klemmu í sænskri pólitík þessi dægrin. Flestir virðast því ætla að bíða bara og sjá. Ráðherrar Jafnaðarmanna benda á að það sé verið að kalla eftir umsögnum um tillögurnar, það geti ýmislegt átt eftir að breytast.

 

 
 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV