Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Vilja skoða hvort rukka eigi meira fyrir að eiga bíl

07.10.2020 - 16:47
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Ólafur Þór Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, vilja að samgönguráðherra og umhverfisráðherra meti hvort og hvernig unnt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. Gjöldin eiga að gera sveitarfélögum kleift að bæta umhverfið og styrkja gjaldstofna sína á sama tíma.

Í tillögu þingmannanna segir að víða hafi þeirri skoðun aukist fylgi að umhverfisvitund byrji í nærsamfélaginu. Margar leiðir hafi verið farnar erlendis til að auka vitund fólks um umhverfisþætti, til að mynda gjöld sveitarfélaga á bílaeign.

„Á Íslandi er þessi hugsun fremur skammt á veg komin enn sem komið er þrátt fyrir að miklar framfarir, til dæmis við flokkun sorps, hafi orðið í mörgum sveitarfélögum á undanförnum árum. Gjaldtaka sveitarfélaga vegna bílaeignar þekkist hins vegar varla nema þá helst í formi bílastæðagjalda og óbeint í formi gatnagerðargjalda,“ segir í tillögunni.

Þá kemur fram að sveitarfélögum hafi ekki tekist að stemma stigu við einkabílanotkun og að almenningssamgöngur hafi að vissu leyti liðið fyrir það. Fyrir vikið séu nú tveir eða fleiri bílar á mörgum íslenskum heimilum sem feli í sér mikinn kostnað hjá sveitarfélögum, til að mynda í gatnagerð og viðhaldi gatna. Þá sé loft- og hávaðamengun af völdum bíla ærin.

Tilgangur tillögunnar er að skoða hvort og hvernig hægt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. „Þar yrði sérstaklega litið til þátta eins og gjalda vegna bílaeignar, notkunar á efnum sem hafa skaðleg áhrif á nærsamfélagið og starfsemi sem hefur neikvæð umhverfisáhrif,“ segir í tillögunni.