Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ummæli ráðherra hitta bændur illa fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda segir vont ef landbúnaðarráðherra skuli hafa þá tilfinningu fyrir búgreininni að menn líti ekki á sig sem alvöru atvinnurekendur. Ummælin hitti bændur illa fyrir, í miðri sláturtíð, að sjá afrakstur ársins.

Landssamtök sauðfjárbænda gagnrýna harðlega orð Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávar- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í gær. Þau voru þess efnis að sauðfjárbændur telji margir að sauðfjárrækt á Íslandi snúist um lífstíl frekar en að afkoma greinarinnar skipti máli. 

„Landssamtök sauðfjárbænda hafa, þvert á móti, kallað eftir viðbrögðum stjórnvalda varðandi aðgerðir sem geta bætt starfsumhverfi greinarinnar.  Telji ráðherra að sauðfjárbændur hafi ekki áhuga á afkomu sinni þá er hann ekki upplýstur um stöðu greinarinnar,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

Hissa á nálgun ráðherra

Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri samtakanna segist hissa á þessari nálgun ráðherra. Ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem sauðfjárræktin sé í og þess að samtökin hafi kallað eftir samtali við stjórnvöld um aðgerðir til að skapa betri rekstrarskilyrði til framtíðar svo bændur hafi einhvern stöðugleika og fyrirsjáanleika í afkomu. Meðal annars hafi verið kallað eftir endurskoðun á rekstrarumhverfi afurðastöðvanna þannig að bændum sé tryggð lágmarks afkoma af þessari virðiskeðju sem lambakjötsframleiðslan er. 

Það viti allir að bændur hafi barist við verðhrun á innanlandsmarkaði og erfitt hafi reynst að ná verðinu upp aftur. Það sé vont ef ráðherra skuli hafa þá tilfinningu fyrir búgreininni að menn líti ekki á sig sem alvöru atvinnurekendur. 

Slæm skilaboð á slæmum tímapunkti

Ummælin hafa fengið mjög sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum og Unnsteinn segir margar hringingar hafa borist á skrifstofu samtakanna í dag. „Þetta hittir bændur mjög illa fyrir, í miðri sláturtíð að sjá árangur af rekstri ársins. Þetta voru slæm skilaboð til okkar bænda á þessum tíma,“ segir Unnsteinn Snorri. Hann segir afurðaverð í ár miklu lægra heldur en væntingar stóðu til um. Fyrir því séu ýmsar ástæður, COVID-19 og fleira setji strik í reikninginn.

„Þessi ummæli ráðherra kalla á það að við þurfum að efla samtalið við stjórnvöld um greinina og eflaust þurfum við að gefa ráðherra ráðrúm til að skýra sitt mál. Við erum boðin og búin til þess að eiga samtal við hann og fara yfir þessa hluti með honum og skýra okkar stöðu. Ég tel nú að hún ætti að vera honum fyllilega ljós,“ segir Unnsteinn.