Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Malbikið ekki í samræmi við útboðslýsingar

07.10.2020 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar segir að ný skýrsla sýni að það malbik sem lagt var á nokkra vegkafla í höfuðborginni í sumar hafi ekki staðist þær kröfur sem gerðar voru í útboði stofnunarinnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort málið verði kært.

 

Sýni úr nýlögðu malbiki á Kjalarnesi voru send til rannsóknar í sumar eftir að tveir létust í umferðarslysi á vegkaflanum.

Fyrstu niðurstöður voru birtar í gær. Þar kemur fram að malbikið hafi hvorki staðist kröfur um holrýmd né viðnám.

Loftorka Reykjavík sá um malbikunarframkvæmdir eftir útboð Vegagerðarinnar. Fyrirtækið keypti malbikið af fyrirtækinu Höfða sem framleiðir það og blandar.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar segir að malbikið hafi ekki verið í samræmi við útboðslýsingar.

„Í sjálfu sér getum við ekki svarað því hvað fór úrskeiðis hjá verktakanum sem hefur þá þennan undirverktaka sem selur honum þetta malbik. Við gerum almennar kröfur til malbiks eða til vörunnar í útboðinu, útboðslýsingunni. Og það er það sem við erum að mæla, hvort við fengum þá vöru afhenta eða ekki,“ segir Bergþóra.

Ásberg K. Ingólfsson, framkvæmdastjóri Höfða, sagðist í samtali við fréttastofu í gær að ekki hefði orðið misbrestur í þeirra framleiðslu og að hún hefði uppfyllt þær kröfur sem komu fram í útboðsgögnum.

 

Andrés Sigurðsson framkvæmdastjóri Loftorku Reykjavík vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Bergþóra segir að stofnunin vinni nú að því að yfirfara alla verkferla út frá niðurstöðu skýrslunnar og hvernig eftirliti með verktökum verði háttað í framtíðinni. Hún segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um að kæra málið.

„Það er í sjálfu sér ekki markmið okkar, meginmarkmiðið er að bæta ferilinn sem við erum að vinna með, en það hefur í sjálfu sér engin afstaða verið tekin til þess. Við erum bara í þessum úrvinnslufasa,“ segir Bergþóra.

 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV