Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Koparsíminn verður farinn með öllu við lok næsta árs

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay - pexels
Síminn tekur nú fyrsta skrefið í því að afleggja PSTN-kerfið, eða koparsímann. Ráðgert er að við lok næsta árs verði koparsíminn aflagður með öllu og að eingöngu stafræn tenging verði hér á landi.

Koparlínan er útbreidd um allt land og enn eru örfá heimili sem reiða sig á hana eingöngu. Þegar hún hefur verið aflögð verður eingöngu stafræn tenging á landinu, svo sem ljósleiðari og 3G-þjónusta. 

Tryggja að enginn missi tengingu alveg

Í svari Póst- og fjarskiptastofnunar við fyrirspurn fréttastofu segir að ráðgert sé að í þessu holli missi ekkert heimili tengingu að öllu leyti. Unnið er að því að tryggja að svo verði ekki heldur í næstu skrefum. Til þess hefur Neyðarlínan verið útnefnd sem alþjónustuveitandi. og mun útvega fjarskiptatengingu fyrir símaþjónustu og nothæfa internetþjónustu þar sem þörf er á. Kostnaður liggur ekki fyrir. 

Ísland vel undirbúið fyrir þessa breytingu

Í svarinu segir þá að Ísland standi mjög framarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að útbreiðslu háhraðaneta. 96,9 prósent landsmanna hafi aðgang að háhraða fastanetstengingu og að 99,97 prósent þjóðarinnar hafi aðgang að 3G netþjónustu. Það geri landið mjög vel í stakk búið til að mæta þessari þróun. 

Koparsíminn einn haldist inni í óveðrum

Í óveðrum síðasta veturs rofnaði fjarskiptasamband víða vegna langvarandi rafmagnsleysis þar sem varaafl á fjarskiptastöðum var ekki hannað fyrir svo langvarandi straumleysi. Þá var koparsíminn sums staðar eina tengingin sem hélst inni á heimilum, þótt þau reiði sig ekki á hann hversdagslega. Að sögn stofnunarinnar hefur verið unnið að því í sumar að bæta þetta. Til þess hafa varaaflsstöðvar verið settar upp við sendastaði auk öflugra rafgeyma. Einnig sé verið að byggja upp nýja fjarskiptastaði og bæta gagnatengingar svo hægt sé að þjóna afskekktari stöðum betur.