Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hófstillt umræða um fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun

07.10.2020 - 19:49
Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Þriðja umræðudegi um fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun til ársins 2025 er senn að ljúka, og hefur umræðan verið hófstillt og einkennst af því ástandi sem ríkir í samfélaginu. Orkan í þinghúsinu er frábrugðin því sem hún er yfirleitt þar sem færri þingmenn eru í húsi á meðan umræðan fer fram

Stjórnvöld ætla við þessar aðstæður að beita ríkissjóði til að verja grunnstoðir. Ráðherrar hafa staðið fyrir svörum í dag og í gær um sína málaflokka. Þar hefur komið fram að eitt langstærsta verkefnið er bygging nýs Landspítala. Um 60 milljarðar fara í það verkefni til ársins 2025.

„Umræðan hefur verið mjög hófstemmd, skildi engan undra af virðingu við þær kringumstæður sem við erum að kljást  við, allt samfélagið. Þetta litar ríkisfjármálin, bæði innihaldið og umræðuna. En meginstefið í þessum tveimur frumvörpum er að verja heimilin og fyrirtækin og leggja grunn að viðspyrnu til framtíðar til að takast á við atvinnuleysið“ segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknar.

„Það er augljóst að það er ekki unnið nægilega í því að ná niður atvinnuleysinu. Það hallar á konur í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það þarf að fjölga störfum í einkageiranum en líka í opinbera geiranum. Og það þarf að taka betur utan um atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra, fólkið sem fer verst út úr þessarri kreppu. Það þarf að hækka bætur atvinnutrygginga og mæta sveitarfélögum í erfiðri stöðu og svo er það skammarlegt að við skulum vera eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna í að bregðast við loftslagsvánni. Það þarf að fjölga störfum, efla velferðina og skjóta nýjum grænum stoðum undir velferðina.“ segir Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar. 

Ummæli landbúnaðarráðherra féllu í grýttan jarðveg

Bráðavandi ferðaþjónustunnar blasir við öllum og þar hefur verið gripið til aðgerða og ráðherrar hafa fulla trú á því að hún taki kröftuglega við sér. Umhverfisráðherra upplýsti í dag að horfið hefði verið frá áformum um urðunarskatt og orð Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðarráðherra um bændur í gærkvöld hafa fallið í grýttan jarðveg en það var formaður Viðreisnar sem spurði ráðherra hvernig hann ætlaði að bæta kjör bænda og stuðla að betra verði til neytenda. 

„Talandi um frelsi, sem bændur þrá og hafa að mörgu leyti vegna þess einfaldlega að fólk kýs sér atvinnu, kýs sér búsetu. Það er svona fyrsti kosturinn sem að við getum sagt, að fólk hafi frelsi um að velja. Ég held að það sé engin goðgá að ætla það að menn kjósi af mörgum ástæðum að stunda sauðfjárbúskap. Maður heyrir viðtöl við sauðfjárbændur og á samtöl við þau, þar sem þeir segja að þetta er meira lífsstíll heldur en spurning um afkomu.“ sagði Kristján Þór í gærkvöld.