Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Allt helgihald falli niður í október

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mælist til þess að opið helgihald falli niður í kirkjum landsins í október. Hugað verði þess í stað því að því að streyma efni til fólks.

Í bréfi sem biskup ritaði til presta, djákna, organista, formanna sóknarnefnda og útfararstjóra, sem greint er frá á vef kirkjunnar, segir að bregðast þurfi við vegna hertra aðgerða stjórnvalda við heimsfaraldrinum.

Tuttugu manna samkomutakmarkanir hafa tekið gildi, en ein undantekning eru útfarir þar sem fimmtíu mega koma saman. Tuttugu manns er hins vegar hámark við aðrar kirkjulegar athafnir, svo sem skírn og hjónavígslur. 

Biskup mælist til þess að halda áfram barna- og æskulýðsstarfi fyrir börn fædd 2005 og síðar, auk þess sem fermingarfræðsla heldur áfram að teknu tilliti til sóttvarnareglna. Allt eldri borgarastarf fellur niður í október og eru prestar og djáknar hvattir til að huga að þeim hópi með símtölum og sálgæslu.

Þá óskar biskup þess að allar kóræfingar falli niður í október og hvetur organista og kórstjóra til halda æfingum uppi í gegnum fjarfundabúnað.