Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Air Iceland Connect flýgur til Vestmannaeyja í vor

07.10.2020 - 21:54
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Air Iceland Connect hyggst hefja áætlunarflug til Vestmannaeyja næsta vor. Þá hefur Isavia ákveðið að draga til baka boðaðar uppsagnir allra þriggja starfsmanna félagsins á Vestmannaeyjaflugvelli og fresta ákvörðun um breytt starfsmannahald. Þetta var kynnt á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja sem hófst síðdegis í dag.

„Bæjarstjóri hefur átt í samskiptum við fulltrúa flugfélaganna undanfarinn mánuð. Meðal annars Air Iceland Connect um mögulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum. Stjórnendur Air Iceland Connect líta á Vestmannaeyjar sem spennandi viðbót við áfangastaði þeirra og hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor,“ segir í fundargerð bæjarráðs.

Flugfélagið Ernir tilkynnti í byrjun síðasta mánaðar að félagið myndi hætta áætlunarflugi til Eyja vegna lítillar eftirspurnar, aðstæðna í þjóðfélaginu og harðrar samkeppni við ríkisstyrktar siglingar. 

Einnig kemur fram að viðræður samninganefndar Vestmannaeyjabæjar við Vegagerðina vegna þjónustusamnings um rekstur Herjólfs séu hafnar og að fundað hafi verið tvisvar.