Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áhyggjur á Landspítalanum: „Mikil áhrif á landsmenn“

07.10.2020 - 08:18
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
Hertar aðgerðir sem gripið hefur verið til síðustu daga voru nauðsynlegar, að sögn Bryndísar Sigurðardóttur smitsjúkdómalæknis á Landspítalanum. Hún segir faraldurinn vera öðruvísi en í vor, þar sem færri einkennalausir einstaklingar eru að greinast og þess vegna dreifist veiran meira en áður. Hún hefur áhyggjur af næstu vikum á spítalanum.

„Veiran er útbreiddari og við teljum að þetta gangi ekki alveg jafn vel og gekk í vor. Ástæðan er sú að þessir einstaklingar sem hafa verið að greinast eru úti um allt í samfélaginu. Þó talað sé um 1-2 hópsmit eru svo margir að greinast á öllum aldri, vítt og breitt í samfélaginu. Hjá mörgum er ekkert vitað hvernig þeir smituðust,“ segir Bryndís, en hún var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás eitt í morgun.

Vegna þessa er staðan núna önnur en í vor.

„Það er engin spurning að jafnvel helmingur allra sem smitast eru einkennalausir. Þetta vissum við ekki endilega í mars. En það eru þá einkennalausir einstaklingar sem dreifa án þess að vita af því. Nú eru þeir ekki að finnast, þrátt fyrir skimanir. Maður er líka að velta fyri sér hvernig gengur að kveða niður þetta. Og þessar aðgerðar sem kynntar voru í gær voru nauðsynlegar, því miður.“

Búist við auknu álagi á Landspítalanum

Bryndís segist finna fyrir auknum kvíða og áhyggjum í samfélaginu og þá virðist fólk skiptast í tvo hópa: Þeir sem telja aðgerðirnar of harðar, og svo þeir sem telja þær of vægar eða að grípa hefði þurft inn mun fyrr. Fáir séu þar mitt á milli.

Áhyggjur innan Landspítalans beinast nú að því að álagið gæti aukist mikið næstu 7-10 daga, miðað við þann fjölda sem hefur smitast síðustu daga. 

„Ástæðan fyrir því að spítalinn höndlaði þetta svo vel í vor er að önnur starfsemi spítalans lá niðri. Allt snerist um Covid. Það stóðu allir saman og sinntu þessum verkefnum afskaplega vel. Ég held það verði erfiðara að gera það núna, því nú er önnur starfsemi spítalans einnig komin í gang. Til þess að geta höndlað bylgjuna sem er fram undan þarf að keyra aðra starfsemi vel niður og það mun hafa mikil áhrif á landsmenn, því miður,“ segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir.