Sýning sem segði „búmm“ ef ekki væri fyrir faraldurinn

Mynd: Þjóðleikhúsið / RÚV

Sýning sem segði „búmm“ ef ekki væri fyrir faraldurinn

06.10.2020 - 10:38

Höfundar

Einar Örn Benediktsson segir Kópavogskróniku vera straumlínulagaða og skemmtilega sýningu en henni hefði vegnað betur í eðlilegra árferði fyrir fullum sal grímulausra áhorfenda.

Þjóðleikhúsið hefur opnað dyr sínar á ný aftur eftir langt hlé. Meðal leikverka sem þar eru nú sýnd er Kópavogskrónika, verk sem átti að frumsýna í vor en var frestað vegna COVID-19. Verkið byggist á samnefndri bók Kamillu Einarsdóttur og er sett upp í leikgerð Silju Hauksdóttur og Ilmar Kristjánsdóttur, sem einnig fer með aðalhlutverkið. Í verkinu er sagt frá konu, ungri einstæðri móður, sem ákveður að leggja dóttur sinni lífsreglurnar með því að segja henni sína eigin sögu, eiginlega sem víti til varnaðar. 

Rætt var um Kópavogskróniku í Lestarklefanum á Rás 1. Gestir þáttarins voru Einar Örn Benediktsson, tónlistar- og myndlistarmaður, Sigríður Björg Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, og Aldís Amah Hamilton, leikkona.

„Þetta var mjög fín straumlínulöguð sýning. Mér leiddist ekki,“ segir Einar Örn. Hann telur þó að sýningin líði fyrir það ástand sem hefur skapast vegna heimsfaraldursins. 

„Þurfum við að bjóða leikurum upp á þetta?“

„Í raun og veru held ég að sýningin þjáist fyrir það að vera spiluð fyrir hálfu húsi og leikarar eru að spila fyrir fólk með grímur,“ segir Einar Örn. „Ég held að það skapist ákveðið andrúmsloft þannig að sýningin verður fyrir vikið hægari og ekki eins átakamikil vegna þess að við sem áhorfendur, við erum ekki í eðlilegu ástandi. Við sitjum með bil á milli okkar og grímur og allir andlitsdrættir sjást ekki... Leikararnir fá engin viðbrögð og ég heyrði á þessari sýningu að það kom bara eitt og eitt fliss, fannst mér... Þá fór ég bara að hugsa: þurfum við að bjóða leikurunum upp á þetta? Eigum við kannski að hinkra með leiksýningar þangað til við komumst á þann level eða þurfum við að hugsa allt upp á nýtt?“

Bergsteinn Sigurðsson tekur á móti Einari Erni Benediktssyni, tónlistar- og myndlistarmanni, Sigríði Björgu Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar, og Aldísi Amah Hamilton, leikkonu, í Lestarklefanum í dag.
Rætt verður um heimildarmyndina Þriðja póllin, leikritið Kópavogskróníku og samsýninguna Haustlaukar II, list í almannarými á vegum Listasafns Reykjavíkur.
 Mynd: FB - Samsett
Einar Örn Benediktsson, Sigríður Björg Tómasdóttir og Aldís Amah Hamilton ræddu um sýninguna í Lestarklefanum.

Sigríður Björg segist sömuleiðis hafa skemmt sér vel á sýningunni en hún hafi ekki skilið mikið eftir sig. Kópavogskrónika sé sýning sem hins vegar myndi líklega vekja mikla lukku við aðrar aðstæður, þar sem vinahópar eða samstarfsfólk gæti fjölmennt. „Þetta er sýning með dramatískum undirtón en það er mikið af bröndurum í henni... Ég hugsaði með mér að þetta væri ekta sýning sem salurinn gæti farið í algjört kast yfir.“

Einar Örn tekur undir það. „Ég held að sýningin geti verið algjört búmm.“

Aldís Amah segir hins vegar að þó sýningin sé stutt og gamansöm hafi hún haft mikil áhrif á hana. „Þessi kona, sem hefur greinilega gert mistök og upplifir sig skaddaða í leikritinu, mér fannst svo magnað að hún ýtir barninu frá sér í þeim tilgangi að reyna að gera það að betri manneskju en hún upplifir sjálfa sig... Ég var mjög snortin og mér fannst Ilmur gera þetta ótrúlega vel, hún var algjörlega á heimavelli.“

Rætt var um leiksýninguna Kópavogskróníku í Lestarklefanum á Rás 1, umræðuþætti um listir og menningu. Einnig var rætt um kvikmyndina Þriðja pólinn og Haustlauka Listasafns Reykjavíkur. Hlusta má á þáttinn í heild hér.

Tengdar fréttir

Leiklist

Harmræn saga móður sögð með húmor

Leiklist

Leggja leyndarmálin á borðið í leikgerð Kópavogskróniku

Leiklist

Leikgerð Kópavogskróniku var áreynslulaus getnaður

Bókmenntir

Kamilla með forvitnilegustu kynlífslýsinguna