Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Segir að VG samþykki aldrei flóttamannabúðir á Íslandi

06.10.2020 - 11:44
Mynd: Alþingi / Alþingi
Það kemur ekki til greina að koma upp flóttamannabúðum á Íslandi og þingflokkur Vinstri grænna mundi aldrei samþykkja slíkt. Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, á Alþingi í morgun, og kallaði hugmyndina fráleita, þótt ekkert benti til þess að til stæði að hrinda henni í framkvæmd.

Tilefnið var orð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur á þingi í gærmorgun, þegar hún var spurð hvort ástæða væri til að efla eftirlit með fólki sem til stæði að vísa af landi brott svo að það gæti síður látið sig hverfa og komist undan brottvísun. Áslaug sagði að vissulega væri fylgst vel með því fólki sem búið væri að ákveða að vísa brott, en að verklagið væri nú til endurskoðunar. Þá benti hún á að víða í nágrannalöndum okkar væri fólk í þessari stöðu vistað á afmörkuðu svæði svo að það týnist síður og auðveldara sé að framfylgja brottvísuninni. Hún tók fram að slíkum svæðum væri ekki hægt að koma upp hér á landi án lagabreytingar.

Ummælin vöktu nokkuð hörð viðbrögð í gær og sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, meðal annars á Facebook, að slík hugmynd væri fráleit, enda ekki á þingmálaskrá ráðherrans. Kæmi hugmyndin fram formlega mundi hann aldrei styðja hana.

„Ekkert annað en flóttamannabúðir eða bara fangelsi“

Bjarkey kvaddi sér hljóðs í almennum umræðum um störf þingsins í morgun til að ræða þetta mál. „Það sem um ræðir er að sjálfsögðu ekkert annað en flóttamannabúðir eða jafnvel bara fangelsi og það kemur ekki til greina að setja slíkar á laggirnar af hálfu þingflokks Vinstri grænna,“ sagði hún.

„Eins og ráðherrann sagði þyrfti lagabreytingu til að slíkt yrði að raunveruleika og ég leyfi mér að fullyrða að slíkt frumvarp kæmist ekki í gegnum minn þingflokk. Enda er slíkt mál hvergi að finna á þingmálaskrá ráðherrans og ekkert sem hún sagði gefur til kynna að það eigi að hrinda slíku í framkvæmd. Og þó að þingmálaskrár séu oft uppfærðar með tilliti til stöðunnar í samfélaginu mundi afstaða Vinstri grænna ekki breytast ef slíkt mál mundi birtast þar,“ hélt Bjarkey áfram.

„Umræðan sem hefur skapast í kjölfarið að um sé að ræða stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur á sér heldur enga stoð í raunveruleikanum,“ sagði hún enn fremur og vísaði í stjórnarsáttmálann þar sem segi að taka skuli á móti fleiri flóttamönnum og leggja mannúðarsjónarmið til grundvallar.

Fráleit hugmynd og kemur ekki til greina

Bjarkey vísaði til þess að hún ætti sæti í þingmannanefnd sem kveðið væri á um í stjórnarsáttmálanum, sem ætti að meta framkvæmd útlendingalaga og eftir atvikum endurskoða þau.

„Ég hef áður sagt og segi enn að þar mun ég berjast fyrir því að fólk sem hingað sækir fái sanngjarna, réttláta og mannúðlega málsmeðferð. Ég vona að aðrir þingmenn hér inni, og þá sérstaklega þeir sem hafa tjáð sig um þessi orð dómsmálaráðherra, muni standa með mér í því, því að þetta er fráleit hugmynd og hún kemur ekki til greina.“

Hér að neðan má sjá bút úr ræðu dómsmálaráðherra frá í gær:

Mynd: Alþingi / Alþingi