Leikstjóri á veiðum á Bryggjunni í Grindavík

Mynd: RÚV / RÚV

Leikstjóri á veiðum á Bryggjunni í Grindavík

06.10.2020 - 14:13

Höfundar

Humarsúpa eða Lobster Soup heitir spænsk heimildarmynd sem fjallar um mannlífið á Bryggjunni í Grindavík og var frumsýnd á RIFF um helgina. Leikstjórinn segir að þótt myndin gerist í litlu þorpi á Íslandi, segi hún stærri sögu sem Spánverjar þekki vel.

Humarsúpu er leikstýrt af þeim Rafael Molés og Pepe Andreu, þekktum heimildarmyndargerðarmönnum í heimalandi sínu. Ólafur Rögnvaldsson framleiðandi var þeim til halds og trausts. En hvers vegna vildu kvikmyndagerðarmenn frá Spáni gera heimildarmynd um lítinn veitingastað í Grindavík?

„Ég og félagi minn Pepe komum til Íslands sem ferðamenn árið 2006 og heilluðumst af landinu. Árið 2017 komum við aftur og fannst eitthvað hafa breyst. Það voru miklu fleiri túristar, eins og við. Þegar við reyndum að koma okkur frá aðalþjóðveginum og helstu ferðamannaleiðunum þá uppgötvuðum við Grindavík og Bryggjuna. Við heilluðumst af veitingastaðnum og stemningunni þar. Upphaflega langaði okkur að segja sögu staðarins og fólksins þar en þá sagði það okkur að staðurinn hyrfi kannski eftir eitt eða tvö ár því einhvern langaði til að kaupa hann undir hótel. Okkur fannst þetta þarfnast útskýringar. Þannig við komum sem túristar en héldum á brott sem kvikmyndagerðarmenn og nú höfum við kvikmynd.“  

Söguhetjur myndarinnar eru bræðurnir Alli og Krilli, eigendur Bryggjunnar, sem Rafael segir að séu svo ekta að sumir áhorfendur hafi átt erfitt með að trúa að þeir væru ekki leikarar. Tungumálið setti hins vegar strik í reikninginn.  

„Við ákváðum að taka myndina á Íslandi því það væri heiðarlegra. Þegar við byrjuðum að mynda fóru þeir að tala íslensku og þá skildum við ekki orð. Við treystum þeim bara. Þegar við snerum aftur til Spánar og fórum að eiga við þýðinguna vissum við hvað við höfðum. Þetta var eins og að veiða fisk. Maður leggur netin og bíður. Stundum ratar kannski reiðhjól í netin, hver veit. En stundum fær maður dásamlegan stóran fisk. Við fengum vissulega okkar skerf af reiðhjólum en það var líka fjölmargt fallegt sem kom á óvart.“

En hvað skírskotun hefur saga af litlu veitingahúsi í sjávarþorpi á Íslandi til áhorfenda í Evrópu?

„Við byrjuðum að fylgjast með þessum litla stað, fjarri okkar menningu, en svo rann upp fyrir okkur að þetta hafði verið að gerast í heimalandi okkar fyrir fáeinum árum. þegar túrisminn mætti. Við sáum að ferlið var ekki ólíkt því sem gerðist í okkar bæjum við Miðjarðarhafið og einnig í stórum borgum sem ferðamenn leggja leið sína um. Við getum skoðað þessa litlu sögu og hún vekur okkur til umhugsunar um það sem gerðist á okkar eigin slóðum.“

Myndin var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian fyrir rúmri viku og vann þar til tvennra verðlauna. Rafa flaug í kjölfarið beint til Íslands og var að ljúka fimm daga sóttkví í Hvalfirði þegar við hittum hann.   

„Það var mikilvægt að vera hér. Við gátum ekki valið sýningartíma, Kófið tók af okkur ráðin, en myndin var valin á RIFF. Sama og dag og hún var sýnd þar fórum við til Grindavíkur og sýndum hana á Bryggjunni. Við urðum að endurgjalda ástina, sögurnar og tímann sem það gaf okkur. Þetta er þeirra líf. Myndin er okkar gjöf til baka. Vonandi kunna þau að meta hana.“ 

 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Persónuleg samtöl í strætó og sundi

Kvikmyndir

Kajakróður léttur miðað við lífið

Kvikmyndir

RIFF verður á netinu: „Fólk þarf afþreyingu“

Kvikmyndir

„Í mínu lífi er Barbí í bílstjórasætinu“