Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Íbúar Eirar lausir úr sóttkví - 5 á COVID-deild

06.10.2020 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttkví hefur verið aflétt á hjúkrunarheimilinu Eir eftir að skimun á íbúum sýndi að engin ný COVID-19 smit höfðu komið upp á heimilinu. Fimm íbúar á Eir og tveir starfsmenn þar greindust í síðustu viku og fóru þá allir íbúar deildarinnar, þar sem smitið greindist, í sóttkví.

„Við náðum, með þessum aðgerðum, að hemja útbreiðsluna,“ segir Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnastjóri hjúkrunar og gæðamála hjá Eir. „Þetta tók skemmri tíma en við bjuggumst við, við áttum jafnvel von á að þetta myndi taka þrjár til fjórar vikur.“

Þeir fimm íbúar, sem hafa greinst með COVID-19 eru nú í einangrun á sérstakri COVID-deild sem var opnuð á Eir. Þórdís segir líðan fólksins eftir atvikum góða, enginn þeirra hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Heimsóknartíma hefur nú  verið breytt á hjúkrunarheimilunum Eir, Skjóli og Hömrum næstu tvær vikurnar vegna Neyðarstigs Almannavarna og er nú á  milli 15:00 og 18:00 á hverjum degi. Aðeins einn gestur má heimsækja hvern íbúa, tvisvar í viku í klukkutíma í senn, óskað er eftir því að það sé alltaf sami gestur og sá hinn sami sé nánast í sjálfskipaðri sóttkví.

Þá er gestum áskilið að nota grímu og biðlað er til fólks á aldrinum 18-29 ára að koma ekki í heimsókn.