Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hnífstunga á Akureyri um síðustu helgi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Einn var fluttur á sjúkrahús vegna hnífstungu í heimahúsi á Akureyri um liðna helgi. Samkvæmt Lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur verið farið fram á farbann yfir þeim sem er grunaður um verknaðinn. Rannsókninni miðar vel áfram og er á lokastigi.

Maður er grunaður um að hafa stungið annan með hníf í gleðskap á Akureyri um helgina. Þetta kemur fram á DV. Þar segir að maðurinn hafi ásamt fleirum verið í gleðskap á Akureyri en verið vísað á dyr. Sá grunaði hafi hins vegar snúið aftur með hníf og stungið annan gestkomandi.

Jónas Halldór Sigurðsson hjá rannsóknarlögreglunni á Norðurlandi eystra staðfestir við fréttastofu að hnífstunguárás hafi átt sér stað á sunnudagsmorgun. Hann tjáir sig ekki um hverjir eiga hlut að máli en staðfestir að farið hafi verið fram á farbann yfir einum vegna þessa. Rannsókninni miði vel og henni eigi að ljúka á næstu dögum. 

Hann segir að lögreglan hafi verið kölluð til í heimahús og þaðan hafi einn verið fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. Spurður um hversu alvarleg árásin hafi verið segir hann hnífstunguárás alltaf alvarlega. Þetta hafi hins vegar sloppið eins vel og hægt var og líðan einstaklingsins sé eftir atvikum góð.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV